Rökvilla dagsins

Kosturinn við að treysta engum er sá að maður leggst ekki í rúst þótt einhver bregðist manni. Ókosturinn er sá að ef maður er ekki með mikilmennskubrjálæði á lokastigi, er manni lífsins ómögulegt að trúa því að maður sé eina manneskjan í veröldinni sem treystandi er á. Og þá annaðhvort hættir maður að treysta sjálfum sér, eða maður setur traust sitt á einhvern sem fyrr eða síðar gæti brugðist.

Ég held að Skoðunarmaðurinn hafi rifið tunguhaftið. Eins gott að það var ekki meyjarhaft. Ég er samt ekkert að pæla í að skrifa honum eða neitt. Undarleg bréfaskrif eru víst skírasta birtingarmynd geðveilu minnar, skilst mér.

Mér finnst ég frekar geðveik þessa dagana en það hefur mér aldrei fundist þegar ég hef lagst í bréfaskrif. Samkvæmt því hlýt ég að vera í aldeilis fínu formi.

Best er að deila með því að afrita slóðina