Lærlingurinn hefur, eins og allir vel uppaldir piltar, mikið álit á kærustunni sinni. Honum finnst lítið koma til rómantískrar hugmyndaauðgi þeirra manna sem færa konum sínum blóm og súkkulaði og segist ekki hafa neina trú á því að sín heittelskaða sé nógu „grunnhyggin“ til að falla fyrir svo „ódýru trixi“.
Ekki ætla ég að draga úr gildi þess að sýna dálítinn frumleika, það er alltaf gaman að fá eitthvað sem kemur beinlínis á óvart en mér finnst líka gaman að fá blóm og súkkulaði og það er ekki af því að ég sé grunnhyggin.
Þú karl, sem lest þetta (og ert eflaust afar djúphugull) munt þú nokkurntíma gleyma deginum þegar þú kemur heim og konan þín er alveg óvænt búin að dressa sig upp í gargandi sexý korselett með sokkaböndum og blúndum, gjörsamlega ólgandi af þrá eftir að uppfylla þínar villtustu fantasíur?
Glætan að það eigi eftir að gerast, segir sjálfsagt einhver. Jamm. Veistu hversvegna? Það hvarflar bara ekki að henni að þú sért svo grunnhygginn að falla fyrir svo ódýru trixi. Það er þessvegna sem hún klippir út myndir úr rósóttu efni með takkaskærum og límir þær á kort handa þér. Hún heldur í alvörunni að tíminn og alúðin sem hún lagði í það að búa til eitthvað sætt handa þér, snerti viðkvæman streng í hjarta þínu. Hún heldur að með því að hafa áhrif á dindilinn á þér, sé hún að gera lítið úr ástinni.
Það er engin ástæða til að bíða eftir frumlegri hugmynd ef þig langar til að gleðja konuna þína. Henni finnst auðvitað æðislegt hvað þú ert klár og sniðugur en henni finnst samt gaman að fá blóm. Það er nefnilega staðfesting þess að þú elskir hana líka þegar þú ert andlega geldur og dettur ekkert sniðugt í hug.