Útsendarar Satans

Ég gekk til dyngju minnar til að hafa fataskipti áður en ég opnaði búðina. Þar sem ég stóð á nærbuxunum var barið að dyrum eigi allóhraustlega og ég heyrði óm af samræðum fyrir utan.

Það fyrsta sem mér datt í hug var að lögreglan væri komin til að yfirheyra mig vegna all ósmekklegrar myndar af afhöfðuðum hundi, sem hryðjuverkamaður nokkur fjarlægði af húsinu hér við hliðina fyrir nokkrum vikum. Þótt ekki eigi ég heiðurinn af því verki, hef ég lýst yfir ánægju minni með þetta þarfa framtak (eða hryðjuverk) hér á þessari síðu og ég held að ég hafi ekki verið jafn snögg að gyrða mig síðan næturvörðurinn í Alþingishúsinu stóð mig og félaga minn að verki við gamansemi í garðinum hér um árið.

Þetta reyndist nú ekki vera löggan, heldur starfsmenn Símans. Ég sem hélt að ég væri endanlega laus við það sataníska fyrirtæki. Þeir vildu semsagt komast í símainntakið sem reyndist vera, ekki bara inni í dyngju minni, heldur í því allra helgasta, þar sem ég skipti um föt og tæti hárin af fótleggjunum. Áður en ég áttaði mig var ég búin að hleypa þeim inn, kveikti á perunni á sömu stundu og rétt náði að skutla mér framfyrir þá og henda handklæði yfir blóðugt plagg sem lá í fatahrúgu á gólfinu.

Ég get ekki talist blygðunarsöm kona, en ég neyddist til að spartla í sprungurnar á andlitinu á mér fyrir framan þá (ég næ ekki upp í spegilinn á klósettinu) og það rann allt í einu upp fyrir mér að það er bara þó nokkuð prívat athöfn í mínum huga.

Vona ég nú að þar með sé mínum samskiptum við Satan og hans útsendara endanlega lokið.

Best er að deila með því að afrita slóðina