-Þú ættir að segja mér að láta þig í friði. Sjálfrar þín vegna. Þig vantar maka og þú finnur hann ekki á meðan ég er til staðar.
Ég hnussaði.
-Þú ofmetur áhrifavald þitt elskan. Ég fann Óttar þótt þú værir eins og grár köttur í kringum mig.
Hann hristi höfuðið óvenju alvarlegur í bragði.
-Þegar þú fórst að vera með Óttari var ég úti á landi.
-Og ég tók ekki einu sinni eftir því. Ég var nú ekki háðari þér en svo. Reyndar hef ég líka verið án þín langtímum án þess að finna mér maka. Ég held minn kæri að mín ástleysisdröm hafi bara ekkert með þig að gera.
Hann brosti eins og sá sem veit betur.
-Þú hefur kannski ekki tekið eftir því, sagði hann, en það vill svo til að þú elskar mig. Það hlýtur að trufla þig. Í alvöru talað Eva, þú ættir að láta mig róa.
Ég setti upp MonuLísu bros.
-Þú vilt semsagt losna úr illskilgreinanlegu sambandi sem þú stofnaðir sjálfur til og hefur sjálfur viðhaldið. Og ætlar að klína ábyrgðinni á mig. Vilt að ég taki einhverja drastiska ákvörðun svo þú þurfir ekki að hafa samviskubit. Nei góði minn. Ég hef nánast aldrei samband við þig að fyrra bragði svo ef þú vilt losna þá þarftu ekkert að gera, nákvæmlega ekkert nema hætta að hringja í mig. Klassisk aðferð sem virkar í hvert einasta sinn. Ég myndi ekki trufla þig.
-Ég veit það, sagði hann, en málið er bara að þetta er þægilegt fyrir mig og ég vil alls ekki losna.
-Auðvitað ekki. Þú ert karlmaður. Þú vilt ekki losna fyrr en þú færð það sem þú vilt. Nú eftir öll þessi ár ertu loksins að átta þig á því að þetta eina muntu ekki fá hjá mér, svaraði ég og hló grimmdarlega.
-Það væri þægilegt fyrir þig að trúa því en það er ekki þannig. Mig langar, það er á hreinu en ég myndi ekki fórna návist þinni fyrir ÞAÐ. Enda get ég gengið að því vísu heima.
-Karlmaðurinn þrífst á veiðimannaleiknum. Hann þolir ekki að geta gengið að því vísu að fá dýpstu þrá sinni fullnægt, sagði ég og reyndi af öllum mætti að kæfa kaldhæðnina, kannski til að hlífa honum, kannski til að kvelja hann með því halda fleiri túlkunarmöguleikum opnum.
-Ég styð fjölkvæni, sagði hann eftir langa þögn eins og þar með væri lausnin fundin.
-Mér finnst fjölkvæni út af fyrir sig ágæt hugmynd en þú ímyndar þér þó varla að ég myndi umbera draslið sem fylgir þér, kenjarnar í þér og í þokkbót einhvern alkóhólistaprímadonnuviðbjóð, bara af því að þú getur ekki lifað án hennar?
Hann lá lengi kyrr og strauk á mér aðra öxlina, ráðleysislega, eins og hann vissi ekki hvort hann væri að hugga mig eða leita huggunar.
-Þú þarfnast mín ekki? sagði hann svo eftir langa þögn.
Nei ástin mín, ég þarfnast þín ekki. Ég kýs návist þína þegar þú ert til staðar en ég sóa ekki tíma í að þrá þig. Ég nýt samvista við þig, hverrar stundar, en ég sakna þín ekki þegar þú ferð. Ég þarfnast þess sem þú stendur fyrir. Ég þarfnast einhvers sem kemur alltaf hlaupandi þegar ég kalla en mér er orðið ljóst að það verður alltaf einhver til að gegna því hlutverki.
Og þegar manni verður það ljóst getur maður lifað án trúar. Ekki án ástar. Manneskjan þrífst ekki an ástar. En maður getur lifað án trúar á alltumlykjandi alheimskærleika og án þess að gera annan einstakling að guði sínum. Því kærleikurinn er í öllum og bara á Íslandi einu eru næstum því þrjúhundruð þúsund manns.
En af því að ég veit að þú þarfnast þess að ég þarfnist þín, og af því að það gleður mig, svo órökrétt sem það nú er, þá dettur mér ekki í hug að segja það upphátt.
Ég vafði hann örmum, kyssti augnlok hans og spurði í grimmd minni;
-hvað heldur þú fallegi strákur? Hvað heldur þú?