Í dag er ég glaður

Málarinn er sannkallaður hvalreki. Í dag stækkaði hann salinn sem sumir hafa af fávisku sinni kallað því tilkomulitla nafni bakherbergi. Hnuss!

Það er ótrúlegt hverju tveir karlmenn, glussatjakkur og verkfærasett geta áorkað. Einn veggur horfinn og í stað hans fæ ég hljóðeinangrað klósett, loftræsingu og meira rými. Heilbrigðiseftirlitið á eftir að gráta af gleði. Leirbrennsluofninn búinn að fá hlutverk, rúmskriflið hans Helga farið og sófinn kominn niður í kjallara í staðinn. Ekki nóg með það heldur galdraði hann burtu allar innréttingarnar, spónaplötunar, speglana og hjólaborðin hans Helga en samt er alveg jafn mikið pláss í kjallaranum og áður. Ég veit ekki í hverskonar fullkomnun þetta endar.
Vííí!