Hvað gerið þið þegar enginn annar er hérna inni?

Undanfarna daga hafa þrír krakkar komið inn í búð til mín og spurt hvað við gerum þegar engir kúnnar eru í búðinni.

Ég minnist þess ekki að hafa nokkurntíma velt þessu fyrir mér þegar ég var barn. Allavega ekki fyrr en ég var orðin nógu gömul til að átta mig á því að „búðarkonan“ þarf að gera fleira en að afgreiða.

Mér finnst skrýtið að þessi spurning komi svona dag eftir dag. Ætli sé að spinnast einhver goðsögn um okkur eða eru börn almennt að velta fyrir sér hinum ósýnilega hluta hinna ýmissu starfa. Spyrja þau t.d. tannlækninn hvað hann sé að gera á milli þess sem hann tekur á móti sjúklingum?