Óður til stóru ástarinnar í lífi mínu

Ég hefi ákafa ást á peningum og er meinilla við að eyða þeim.

Að vísu þarf maður alltaf að nota helling af peningum og eini tilgangurinn með því að geyma þá er sá að láta þá æxlast en ég geri skýran greinarmun á því að verja fé og eyða því. Það er bara sóun að nota peninga til einhvers sem er manni hvorki til gagns né ánægju. Mér finnst t.d. gaman að nota peninga til að fara í leikhús eða kaupa gjafir handa þeim sem ég elska en mig svíður alveg óskaplega í nískupúkann ef ég fæ stöðumælasekt.

Í dag er stór dagur. Ég hélt upp á hann með því að fara með peningana mína á lóðarí í von um að þeir kynnist fleiri peningum sem vilja vera vinir þeirra og eignast með þeim nýja peninga. Peningar eru nefnilega félagsverur. Ég vona að peningarnir mínir hafi meiri félagslega færni en ég sjálf.