Leigusál

Eva: Viltu leika við mig eftir vaktina?
Bruggarinn: Leika við þig? Hvað viltu gera?
Eva: Við leikum að ég sé Djöfullinn. Þú selur mér sál þína á fimmhundruðkall og þar með verður þú að gera allt sem ég segi þér.
Bruggarinn: Ertu klikkuð? Ég sel ekki sál mína á fimmhundruð kall, ég vil fá fimmtánhundruð.

Eva: Það er of mikið, ég er ekkert að tala um varanlegan kaupsamning, vil bara taka sálina á leigu í smástund og ef þér líst ekkert á þetta geturðu alltaf hætt við en þá vil ég líka fá endurgreitt.
Bruggarinn; Ef ég á að leigja þér sál mína er lágmark að leigan dugi fyrir kóki og sígarettum.

Við sættumst á þúsundkall. Ég settist niður áður en ég fór heim og hripaði á miða fyrirmæli til leigusálarinnar. Vínveitan sagði mér í óspurðum fréttum að hann hefði kynnst stelpu. Hefur líklega haldið að ég ætlaði að forfæra hann og fundist rétt að láta mig vita hvernig stæði í bólið hjá honum. En ég er nú vönust því að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og ef ég hafði ætlað að greiða fyrir afnot af líkama hans hefði ég sennilega boðið hærra en þúsundkall. Af því að þá hefði ég a.m.k. haft óljósa hugmynd um hvað ég fengi og ég fullyrði að kroppur Bruggarans er meira en 1000 króna virði. Kannski sálin líka en þar sem sálin er óáþreifanleg, bundin líkamanum og sennilega ekki til, veit maður aldrei alveg fyrir víst hvort maður hefur í raun og veru aðgang að sálinni. Fyrir nú utan það að maður hefur ekki hugmynd um það að óreyndu hversu áhugaverð sálin er. Þegar allt kemur til alls eru líkamar áþreifanlegri en sálir og hljóta því að hafa hærra verðgildi. Auk þess hef ég greiðan aðgang að karlmannskroppum, það eru bara sálir þeirra sem sem eru haldnar snertifælni.

-Af hverju má ég ekki sjá hvert við förum?
-Af því að ég hef gaman af því að rugla í þér og þetta er til þess gert að skemmta mér.
-Hvar erum við?
-Á góðum stað.
-Eru ljósin hérna slökkt?
-Nei, þú ert orðinn blindur.
-Ég var ekki viss því ég er með augun lokuð.
-Þér er óhætt að opna þau. Það er niðamyrkur hér og enginn að fara að horfa á þig.

-Veistu ekki hvað þú vilt fá út úr lífinu eða er bara erfitt að ná í það sem þú vilt? spurði ég.
-Ég veit bara ekkert hvað ég vil, svaraði hann.

Ég býst við að það eigi við um flesta. Hvað vill maður í rauninni? Það snýst ekki um stílabækur, fullar af misraunhæfum draumum og markmiðum. Það kemur í ljós þegar maður lítur til baka og veltir því fyrir sér hvað maður gerði rétt og hvað rangt, hverju maður vill í rauninni breyta þótt það sé orðið of seint.

Þegar allt kemur til alls veit ég hvað ég vil. En allt hefur sinn verðmiða og ég er ekki alltaf viss um hvað má kosta.

Ef ég ætti að deyja á morgun myndi ég ekki óska þess að ég hefði þénað meiri peninga, unnið virtari störf, náð mér í fleiri prófgráður, sofið hjá færri eða fleiri mönnum, ferðast víðar eða tollað í hjónabandi lengur en 4 ár. Ég sé heldur ekki ástæðu til að hafa samviskubit gagnvart drengjunum mínum, maður gerir aldrei sitt besta en hvað uppeldið varðar hef gert harla vel. En ég vildi að ég átt innilegra samneyti við sálirnar í fólki og ég vildi að ég hefði lesið fleiri fermetra en ég hef skúrað og skrifað eina línu sem skiptir máli fyrir hverja klukkustund sem ég hef eytt í tilgangslausa vinnu í þágu fólks sem ég engar skyldur gagnvart, hvorki siðferðilegar né tilfinningalegar.

Í nótt tók ég sál á leigu. Ég bjóst ekki við neinu en það undarlega er að það virkaði. Sumt virkar, allavega einu sinni.

Best er að deila með því að afrita slóðina