Á matseðlinum er gufusteikt lambakjöt og einhver virðist hafa lagt í það aukamerkingu því fyrsta kvöldið sitt í þjónsstarfinu er ungsveinninn látinn klæðast leðurbrynju. Svitinn bogar af honum þar sem hann ber fram „víkingamat“, lamb með kartöflumús og gljáðu grænmeti.
Ojæja, flestir gestanna eru útlendingar og hafa ekki hugmynd um það hvenær Íslendingar lærðu að búa til kartöflumús og sjálfsagt trúir stór hluti landans því að kartöflur hafi verið ræktaðar á Íslandi á miðöldum. Mér finnst aftur ævintýralegra að láta sér detta í hug að bjóða upp á dósagrænmeti sem hluta af víkingamáltíð, en alltaf er fólk jafn ánægt og bissniss er bissniss. Gengi sennilega ekki upp að bjóða fólki að stífa soðna hálsbita úr hnefa eða gluða fiski, graut og hrútspungum saman í ask handa hverjum og einum.