Bréf til Gvuðs

Góðan daginn Gvuð minn góður og vonandi svafstu betur en ég í nótt.

Þetta eru góðir dagar Drottinn minn dýri. Að vísu vantar nokkuð upp á að ég eigi fyrir útgjöldum mánaðarins, hver bókaútgefandinn á fætur öðrum segir mér að fara í rass og rófu, af hinnu ágætustu kurteisi þó og fyrrum ástmögur minn heldur ennþá að vinsamleg ábending mín til hans um að fara í rass og rófu hafi í raun verið dulvituð ósk um athafnir af sódómskum toga. Samt er ég sæl.

Það hefur nú dregist dálítið hjá þér að uppfylla nokkrar af mínum auðmjúkustu óskum en ég erfi það ekki við þig. Ég býst við að þú hafir haft nóg á þinni könnu síðan hún amma mín dó og þið móðir mín tókuð við stjórn alheimsins. Nú fer þó vonandi að hægjast um hjá þér, fyrst sonur minn ofstækismaðurinn er tekinn við einu af þínu veigamestu verkefnum; að dæma lifendur og dauða. Ég var þessvegna að velta því fyrir mér hvort þetta væri ekki einmitt rétti tíminn til að leggja inn hjá þér spluknunýjan pöntunarlista. Þú getur fleygt þessum gömlu, sem ég lagði inn hérna um árið. Ég er löngu búin að tileinka mér bæði kjark og æðruleysi af sjálfsdáðum og það er svo margir vitlausari en ég að það væri bæði frekt og kapitalískt af mér að fara fram á meira vit.

En það er samt eitt sem mig vantar Gvuð, og ég geri ráð fyrir að þú getir útvegað mér án verulegrar fyrirhafnar. Mig vantar semsé karlmann. Hann þarf ekkert að vera sérstaklega vel lukkað eintak að öðru leyti en því að það er algerlega nauðsynlegt að hann hafi til að bera æðruleysi til að sætta sig við að hlutirnir verði alltaf eins og ég vil hafa þá, kjark til að breyta því sem ég vil láta breyta og vit til að átta sig á því að klósett er ekki endilega hreint þótt búið sé að sturta niður.

Mér skilst að það sé eitthvað lítið til af visku og öðrum gáfulegheitum í himnaríki þessa dagana svo ég reikna með að þú neyðist til að taka dálítið vit frá einhverjum öðrum til að gefa þessum væntanlega brúðguma mínum. En Herra minn trúr, vertu samt svo vænn að taka ekki meira frá ráðamönnum þjóðarinnar. Þeir mega bara alls ekki við því að missa það litla sem þeir hafa, trúðu mér. Taktu heldur smávegis vit frá honum Ödípussi. Hann vill mig ekki hvort sem er og ef hann er ekki nógu gáfaður til að ráða fram úr vandamálum lífsins sjálfur, getur hann alltaf spurt hana mömmu sína ráða.

Þú gerir þetta nú fyrir mig almáttugur minn, er það ekki?

Kær kveðja
Eva

Best er að deila með því að afrita slóðina