Hvunndags

Meistarinn minn dýrkaði og dáði er víst hrjáður af krabbameini, sumir segja dauðvona. Mig langar að hitta hann einu sinni áður en hann deyr en maður hringir ekki í fólk sem maður hefur ekki séð í 10 ár og segir „Ég frétti að þú værir að deyja, má ég koma og kveðja þig?“ Svoleiðis gerir maður bara ekki, ekki einu sinni þótt maður sé galinn.

Ég er eiginlega komin að þeirri niðurstöðu að mig langi ekkert að vera í þessum fokkings Háskóla, er búin að nýta yfirdráttinn í botn (og enga hótfyndni um að yfirdráttur sé betri en enginn dráttur því það er hin mesta lygi) og þarf að greiða gítarskólann fyrir Pysjuna á morgun. Pabbi hans tekur ekki þátt í því. Hann á ekki krónu með gati frekar en vanalega og skorar að því leyti hærra á lúseraskalanum en Maðurinn sem átti ekki tíkall.

Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að brátt fari að draga til tíðinda í sápuóperu tilveru minnar sem síðustu vikurnar hefur verið óvenju viðburðasnauð, gott ef ekki bara notaleg á köflum.