Það hefur afskaplega marga og góða kosti að vera sjálfstætt starfandi en gallinn er sá að tekjur geta verið mjög sveiflukenndar. Um mánaðamótin febrúar-mars var ég hreinlega orðin úrkula vonar um að fá nægilega mörg verkefni til að ná endum saman svo ég ákvað að bíta í það súra epli að dæmið gengi ekki upp og fór á stúfana til að sækja um vinnu á almennum markaði.
Ég get ekki hrópað húrra fyrir móttökum þeirra vinnuveitenda sem ég hafði samband við. Að vísu fékk ég allstaðar gott og hlýlegt viðmót og oftast var mér boðið kaffi en það gekk hins vegar ansi illa að fá þær upplýsingar sem ég tel skipta mestu máli, svosem um laun, hlunnindi, vinnuaðstæður, möguleika á fríi o.fl. Mér tókst hvergi að fá þessar upplýsingar í síma en var hins vegar beðin að mæta í viðtal. Það gerði ég en þótt ég væri mætt á staðinn var í mörgum tilvikum einnig fátt um svör. Mér var gjarnan sagt að það væri einhver annar sem „sæi um launin“. Mér finnst það satt að segja stórfurðulegt að þeir sem taka á móti fólki í atvinnuviðtal skuli ekki hafa þessar grundvallarupplýsingar á hreinu.
Allir vildu þessir mætu atvinnurekendur fá nákvæmar upplýsingar um menntun mína og starfsreynslu, auk prófskírteina og símanúmera meðmælenda og það er auðvitað sjálfsagt. Auk þess vildu þeir flestir fá upplýsingar sem ég sé nú reyndar ekki að komi því nokkuð við hversu hæf ég sé til starfsins, svosem um áhugamál mín, aldur barnanna minna og starf maka. Nú jæja, þetta eru svosem engin leyndarmál en ég sagði flestum þeirra sem ég ræddi við að þessu skyldi ég svara þegar og ef ég tæki þá ákvörðun að sækja um starfið. Við þau svör horfði þetta ágæta fólk undantekningalaust á mig í forundran og spurði:
„Nú, ertu ekki komin hingað til að sækja um?“
„Nei,“ sagði ég, „ég kom til að kynna mér starfið. Ég sæki vitanlega ekki um það nema ég telji starfið, launin og vinnutímann henta mér.“
Við þetta svar fékk ég yfirleitt nokkuð góðar upplýsingar um vinnuaðstöðu, sumarfrí o.fl. en aldrei nema í mesta lagi óljósa hugmynd um laun eða svarið „við borgum samkvæmt taxta“, sem var í engu tilviki það sem mér fannst hæfilegt. Þessi viðbrögð tel ég engu fyrirtæki til sóma og ég varð afskaplega fegin þegar mér buðust aftur nógu viðamikil verkefni til að sjá fram á að geta framfleytt mér án þess að vera á launaskrá hjá fólki sem lítur svo á (eins og tungumálið gefur til kynna) að vinnuveitandinn sé af örlæti sínu að gefa launþeganum tækifæri til fjáröflunar, sem hann aftur þiggur með þakklæti og hógværð.
Það er engu líkara en að margir atvinnurekendur telji að afkoma fyrirtækja þeirra sé óháð því hvort þeir fái hæft fólk til starfa, að starfsfólki þeirra sé sérstakur heiður sýndur með tækifæri til að vinna fyrir þá og að spurningar væntanlegra starfsmanna um kaup og kjör séu óviðeigandi, gott ef ekki bara móðgandi. Ég hélt þó þar til í gær að þetta viðhorf væri bundið við einkageirann en ríki og sveitarfélög væru undanþegin þessum furðulega dónaskap. Það gekk því fyrst fram af mér í gær, þegar ég fékk tölvupóst þess efnis að ég hefði verið „ráðin/n til að hafa umsjón með samræmdu stúdentsprófi“ eins og það er orðað í bréfinu en að fyrirkomulag verkefnisins og upphæð greiðslu fyrir þjónustuna liggi ekki fyrir. Ég er jafnframt beðin að hafa samband strax hafi mér snúist hugur. Ekki virðist vera reiknað með þeim möguleika að vinnufyrirkomulag og upphæð greiðslunnar geti haft nokkur áhrif á það hvort ég vilji taka verkefnið að mér. Ég er semsé ráðin, án þess að fá þessar sjálfsögðu upplýsingar.
Ætli einhver hér sé mér sammála um að við ættum kannski að endurskoða það almenna viðhorf að vinnuveitandi eigi meiri rétt á upplýsingum um tilvonandi starfsmann en hann sjálfur um laun og annað sem snertir hann beint?
Almenn viðhorf endurspeglast í tungumálinu og þess vegna er nýtt tungutak þáttur í baráttu minnihlutahópa fyrir breyttri afstöðu. Þannig urðu aumingjar að fávitum (eða var það öfugt) fávitar urðu vangefnir, vangefnir þroskaheftir og í dag er vissara að nota orðið misþroska eða greindarskertur ef maður vill ekki taka áhættuna á að móðga einhvern. Kannski þarf á sama hátt að nota tungmálið til að uppræta það viðhorf að launþegar séu almennt þrælslundaðar undirlægjur sem gera ekki einu sinni kröfu til þess að fá að vita að hverju þeir ganga þegar .þeir ráða sig til starfa. Sögnin að þiggja er í hugum okkar tengd því að fá eitthvað án þess endilega að eiga rétt á því og þessvegna er launþegi ekki heppilegt orð. Ættum við kannski frekar að kalla launþega launtaka? Eða ættum við að kalla þá vinnuveitendur þar sem það eru í raun þeir sem veita fyrirtækinu vinnuframlag sitt? Við gætum þá kallað atvinnurekendur vinnuþega/verkþega eða launagreiðendur. Ég veit svosem ekki hvort þetta myndi breyta miklu en orð eru til alls fyrst.
—————–
Binni @ 21/04 11.38
Bráðskemmtileg lesning og þörf ádrepa.
—————–
gunný @ 21/04 16.32
Spurning hvort það geti verið að myndist slagsíða í þessum efnum þegar atvinnuleysi verður hluti af allri almennri umræðu.
Kvíðbogi fólks sem horfir fram á að afkomu þess er ógnað er án efa umhverfður bábiljum um slíkar óttatilfinningar, og tjáningu þeirra öllu heldur. Og valdinu fylgir vandi og verður víst margur af því api eins og af aurunum og ólæs á margt í mannlífinu, svo sum eins og mannlega reisn og sjálfsögð réttindi.
Er örugglega rétt að þörf sé á að leggja til atlögu við tungumálið sem skýrir valdatafl tilverunnar, sem auðvitað felur meinsemdir þess líka.
Mér segir svo hugur að hér sé á brattann að sækja, sennilega af því heimsveldismálin valda mér svartsýni almennt, en dropinn holar steininn og þetta er góð byrjun eða ábending!
—————–
Þorkell @ 22/04 16.29
Vinnuveitandi er að sjálfsögðu sá sem veitir vinnu sína, þ.e. starfsmaðurinn. Sá sem á fyrirtækið er hins vegar vinnuþegi, enda tekur hann við vinnu starfsmannsins 🙂
Annars er þetta bráðskemmtilegur pistill og þörf áminning.
—————–
Ólöf I. Davíðsdóttir @ 22/04 18.04
Þorkell, hvílíkt innsæi! Þú hittir naglann á höfuðið. Hvað sagði ekki hún Svava Grönfeld við Jón Ársæl? Hún sagði að það væri tvennt sem fyrirtæki þarfnast, viðskiptavinir og starfsfólk. Atvinnurekendur verði að virða hvort tveggja því án viðskiptavina verði ekkert fyrirtæki og ekki heldur án starfsfólks. Áhersla hafi hins vegar verið um of á viðskiptavininn.
Það er eins og sum fyrirtæki hugsi sem svo að það megi alltaf skipta út starfsfólki en það verði að halda í kúnnann.
—————–
Ólöf I. Davíðsdóttir @ 22/04 18.09
Úpps, innsæi hjá Evu. En Þorkell er engu að síður góður.
—————–
Þorkell @ 22/04 18.29
Þakka 😉