Mission accomplished

Þá er ég búin að sinna samkvæmisskyldum mínum fyrir næstu 5-6 árin.

Eldri kona spurði hvort ég væri dóttir afmælisbarnsins, (sem er rúmu ári eldri en ég). Ég sagði henni ekki að lesa Dale Carnegie betur, útskýrði ekki einu sinni að það þyrfti að vera um 10 ára aldursmunur til að þetta hallærislega mannblendnistrix hitti í mark. Brosti bara og sagði eitt orð, nei. Ég kann mig svo vel. Halda áfram að lesa

Rof

Hvað sjá menn svosem
við uppblásið rofabarð?

Fáein græn strá
í svörtum sandi
bera vitni
viðleitni mannanna
í eilífri baráttu við vinda sjó
og sand.

Ekki lái ég þér
að hugsa til framandi stranda.

Þar er ekki sandurinn auðnarland
heldur gylltur af sól og hlýr.

Þar hlaupa fallegar stúlkur
skríkjandi út með öldunni
og börn byggja kastala
í skuggi pálmatrjáa.

Þar er ekki krían
vomandi yfir,
tilbúin að gogga í þig
þegar minnst varir,
engir vindar blása sandi í augu þín
og ekki bera öldur þeirra stranda
lík barna þinna að landi.

Auðvitað ferðu þangað,
auðvitað.

Samt kemurðu aftur
og aftur
á hverju vori
með handfylli af grasfræi

í þeirri staðföstu von
að eitt þeirra skjóti rótum.

Þú átt það skilið

Svo langar mig að vita hvernig menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ég og allir aðrir sjónvarpsnotendur, eigi alltaf skilið að fá súkkulaði. Ég hélt að til að verðskulda eitthvað þyrfti maður að gera eitthvað sérstakt og að í nútíma velmegunarsamfélagi gæti maður bara gúllað í sig óhollustu án þess nokkur væri að velta því fyrir sér hvort maður ætti það skilið.

Nú veit ég semsagt að ég á skilið að menga skrokkinn á mér með sykri. En ég veit ekkert hvers vegna.

Ég er búin að liggja yfir mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna en finn hvergi þetta ákvæði um að allir eigi rétt á flottu eldhúsi.

Allt fullkomið

Ég hef vandað mig við uppeldið á drengjunum mínum en þó er einn þáttur sem ég hef vanrækt. Ég hef ekki gert miklar kröfur til þess að þeir sinni húsverkum.

Þegar ég var barn var mér sagt að þeir sem ekki væru látnir skúra, skrúbba og bóna sem börn, yrðu hjálparvana sóðar á fullorðinsárum. Ég trúði þessu en samt hef ég frestað því ár eftir ár að gera syni mína að ræstitæknum. Ég hef látið nægja að setja þeim fyrir smáverkefni; þú átt að ganga frá þvottinum, þú átt að ryksuga stigaganginn o.s.frv. Ég hef hingað til haldið að það þyrfti sérstaka þjálfun til að láta sér detta í hug hvað þurfi að gera á venjulegu heimili og hvernig eigi að gera það. Síðustu tvö árin hef ég þessvegna séð fram á að uppeldið muni lenda á konunum þeirra. Halda áfram að lesa

Tískuröskun

Skærbleik húfa, rauðar ökklasíðar buxur og bláir sokkar hljóta að benda til sértækrar tískuröskunar.

Gaurinn sem telst víst bjartasta vonin í tískuheiminum klæðir sig einmitt þannig. Pant versla í Hagkaupum.