Og alltaf verð ég jafn hissa

Í dag fékk ég fréttir sem leiddu mig að alveg nýrri niðurstöðu um eðli mannsins.

Konur eru akkúrat og nákvæmlega jafn miklir fávitar og karlmenn!

Munurinn er sá að þegar karl gefur skít í mig fæ ég enga skýringu. (Nema kannski búllsjittskýringu eins og þegar gaurinn flutti út af því að hann þurfti endilega að eignast börn (en sagði mér það ekki fyrr en EFTIR að ég fór í ófrjósemisaðgerðina) og hefur ekki verið við kvenmann kenndur síðan.) Kona sem gefur skít í mig hefur hinsvegar skýringu. Jafnvel tvær skýringar og báðar góðar. Reyndar svo frábærar að ég er ekki bara sátt, heldur beinlínis glöð fyrir hennar hönd.

Svo kemur bara í ljós að þessar frábæru skýringar standast ekki. Hvorug þeirra. Og í þokkabót er ég síðasta manneskja á jarðríki til að frétta það.

Ég held að ég sé að ná þessu:
Hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir virðast vera.

Löggan sem beitti kylfunni

Cartoon-PoliceEinu sinni vann ég við öryggisgæslu. Hluti af starfinu fólst í því að taka skýrslur af þeim sem voru grunaðir um þjófnað, skemmdarverk eða önnur smáafbrot og vísa fólki af svæðinu ef það var drukkið eða með óspektir. Á þeim tíma var mikill áhugi fyrir því meðal ungra öryggisvarða að fá að ganga vopnaðir enda þyrftu þeir einatt að eiga við drukkið fólk og hættulegt. Halda áfram að lesa

Fríhyggjan

-Fullvissan er fiskur, sagði ég.
-Gerðist hún þá skáldleg mjök, ok undraðist öll alþýða manna háfleygi hennar, svaraði Drengurinn.
-Hál, þú veist. Gengur þér úr greipum. Og ef þú nærð að landa henni þá bara deyr hún. Þú getur tekið heppilegar ákvarðanir eða snjallar en þú getur aldrei verið viss um að eitthvað sé fullkomlega rétt.
-Þessu er ég nú bara ekki sammála. Mér finnst jólafrí t.d. vera fullkomlega rétt. Mér hefur fundist það frá því að ég lærði orðið jólafrí.
-Þar komstu með það. Jólafrí. Það er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Hver þarf trúarbrögð eða pólitík ef hann hefur jólafrí? Heimspekistefna er fædd.
-Já, sagði Drengurinn, eða stjórnmálastefna. Við skulum kalla hana fríhyggju.

Ænei

Fokk í helvíti, ég held að ég sé að veikjast. Líkaminn sennilega að stilla sig inn á að nú sé frí framundan og þá megi leggjast í aumingjaskap. En hann skal ekki komast upp með það. Þótt ég þurfi að skilja mína vösku galdramenn eftir með tómar hillur og ómerkta tepakka til að ná 10 tíma svefni (svefn læknar allt nema ástsýki), SKAL ég vera keik þegar Anna sækir mig í fyrramálið.

Maður má fá sumarfrí á þriggja ára fresti án þess að fá samviskubit. Og þótt það væru meira en þrír dagar.