Sprungið

Eitt vont gerir margt gott.
Margt vont ætti þá að gera eitt frábært.

Húsnæðið er sprungið. Það er vont mál sem kemur til af góðu. Þótt þrengslin séu til vandræða hefur það stóra kosti að fá stóra hópa. Það er miklu hagkvæmara fyrir mig en að vera bundinn yfir 6 eða 7 hræðum öll kvöld vikunnar. Reyndar er skemmtilegra að fá litla hópa en þar sem Bragi er hlaupin í mig reikna ég hvort sem er með að skemmta mér betur með honum en í vinnunni á næstunni. Halda áfram að lesa

Maður fær ekki allt

Þekking á tæknilegum atriðum hjálpar vissulega. Æfing, -nauðsynleg.

Þegar upp er staðið er þetta samt líka spurning um þessi 3% sem kallast hæfileikar. Ég fæ dálítinn kjánahroll þegar snillingur á sínu sviði, opinberar fullkomið getuleysi sitt á einhverju öðru, sama hvort það er í ædólinu eða á öðrum vettvangi. Maður hefur einhvernveginn meiri væntingar til afburðafólks.

Kannski eru allir blindir á sjálfa sig. Kannski er best að vera ekki framúrskarandi í neinu.

Drjúg eru morgunverkin

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en flutt hefur, segir Stefán og má það til sanns vegar færa.

Það sama á við um microcosmos tölvunnar. Ég var að flytja skjöl í nýjar möppur og komst þá að raun um að ég á 6 galdra sem ég var búin að gleyma og hafa aldrei farið út af heimilinu. Aukinheldur hálfunna ljóðabók sem var mér svo rækilega gleymd að ég hélt andartak að hún væri eftir einhvern annan. Ánægjulegur fundur. Ég hef verið steingeld allt of lengi en nú er kominn útgangspunktur.

Eitt vont gerir margt gott. Það er lögmál sem ég plantaði fyrir löngu og er stöðugt að sanna sig.

Stæði

Fyrir tveimur vikum sendi ég sviðsstjóra skipulagssviðs Reykjavíkurborgar eintak af bílastæðagaldrinum.

Nú er hægt að leggja við Vesturgötuna og ég hef ekki orðið þess vör að bílastæðaverðirnir skipti sér af því.

Ekki fannst mér vanta fleiri einstefnugötur í miðbæinn en bílastæðahallærið angraði mig þó töluvert meira.

Bara einhver sálarlufsa í fullkomnum líkama?

Ég er heppin með skrokk. Heilsuhraust. Fitna ekki nema eiga það skilið. Ég sýni þó sjaldan í verki að ég kunni að meta það og stundum vakna ég með verðskuldaða ljótu. Sé sjálfa mig í spegli og hugsa oj. Þegar þannig stendur á er tvennt í boði; að verða að skvapslytti að gera eitthvað í því. Það lagast ekki með því að hringa sig uppi í sófa með súkkulaðikex. Halda áfram að lesa