Galdrabíllinn bilaði

Ég held að minn næst þarfasti þjónn sé að hefna sín fyrir vanræksluna. Þegar hann bilaði lofaði ég honum að senda hann í allsherjar yfirhalningu ef hann héldi út þar til hann kæmist á spítalann og það mun ég að sjálfsögðu standa við en dæmið verður svo dýrt að ég þarf líklega að leita til Mammons. Ég virðist vera í náðinni hjá honum svo það reddast. Eins gott samt að ég sé betri við Lærlinginn en bílinn, annars fer nú Mammon minn að verða þreyttur á mér. Halda áfram að lesa

As good as it gets

Hann: Svo þú hefur hitt einhvern?
Hún: Nei. Eða jú, kannski, en hann hitti aðra. Fínt samt að vita að það er ekki útilokað að ég hrífist af einhverjum á mínum aldri.
Hann: Það er víst eitthvað í gangi hjá þér, ég þekki þig.
Hún: Ég sver!
Hann: Hvaða blik er þetta þá í augunum á þér?
Hún: Ekkert.
Hann: Hahh, ég veit hver það er! Djöfull vissi ég það.
Hún: Jæja?
Hann: Ætlarðu að gera eitthvað í því?
Hún: Nei.
Hann: Því ekki?
Hún: Maður þarf ekki endilega að éta allar kökurnar í bakaríinu.
Hann: Þú mátt éta mig.
Hún: Æ góði, tantraðu tíkina þína.

Hann (leiður): Kannski ætti ég að láta þig í friði???
Hún (kuldalega): Þú gerir það sem þér finnst rétt.
Hann: Það er málið. Hjá mér er ekkert rétt eða rangt. Hjá mér er bara mun ég sjá eftir því? Og eitt veit ég með vissu; ef ég læt þig í friði, mun ég alltaf sjá eftir því.

Þögn.

Hann: So, maybe this is as good as it gets.
Hún: Já. Ég býst við því hjartað mitt. Það versnar varla úr þessu.

Sennilega ekki

Ég hef ekki fengið neinn greiðsluseðil til að borga af kreditkortinu og netbankinn minn þvertekur fyrir það að nokkurt kreditkort sé skráð á mig. Samt er ég nú með kort og hef ekki lent í neinum vandræðum með að nota það. Eitthvað á ég erfitt með að trúa því að kortafyrirtækið hafi ákveðið að láta mig fá kort sem ekki þurfi að borga af.

Dund, hvað það væri samt næs.

 

Til að allt sé á hreinu…

Bara svo það sé á hreinu og allir meðvitaðir um þakklæti mitt og hrifningu, þá var það galdravefarinn Ásta sem setti upp vefsíðuna fínu og fullkomu fyrir Nornabúðina og tók grilljón og eina mynd. Hún hefur sumsé ekki slegið mér örlagavef, heldur Nornabúðarvef ef einhver skyldi hafa misskilið titilinn sem ég gaf henni á tengli, bæði hér og hér.

Það var hinsvegar Anna sem trixaði síðuna þannig að hin tölufatlaða og lagfæringaóða norn gæti grautað í henni án þess að klúðra myndum, letri og fyrirsögnum í hvert sinn, fyrir nú utan það að gera mér fært að blogga án þess að streða við Blogger.

Snorri (hinn vefsíðulausi) tók svo myndirnar (sem eru væntanlegar) af allkonar dóti sem hefur bæst við á síðustu mánuðum.

Hamingja mín með þetta allt saman er takmarkalaus og mun þessa englum líka fólks getið að góðu í ævisögu minni.

Ælupest dagsins

Var það ekki í fyrra haust sem þættirnir um íslenska glaumgosann voru í sjónvarpinu? Einhver lúði frá Akureyri var sendur í klippingu og ljós og nokkrar dindilhosur slógust um hann í margar vikur, spyrjið mig ekki af hverju.

Allavega, ég man að þegar dömurnar voru beðnar að lýsa sjálfum sér, sögðu nokkrar þeirra „ég er skemmtileg“ eða jafnvel „ég er fyndin“. Aldrei fyrr né síðar hef ég kynnst fyndinni manneskju, sem þarf að segja frá því hvað hún sé fyndin til þess að fólk fatti það. Ég efast líka stórlega um að nokkur verulega falleg kona myndi senda einhverjum mynd af sér ásamt skilaboðunum, „ég er mjög falleg“. Það sést nefnilega alveg.

Fólk sem hefur umræður um viðkvæm málefni þannig „ég er ekki með fordóma en…“ er venjulega jafn fordómafullt og dindilhosurnar úr þessu hallærislega sjónvarpsþætti eru lítið fyndnar. Og sá sem segir „ég er sko ekki snobbaður“, en gefur um leið í skin að hann hafi reyndar mjög góðar ástæður til að vera snobbaður og heldur að það að snobba niður á við beri vott um snobbleysi, það er sko snobbhani af verstu sort.

Afsakið mig meðan ég æli.

Ég skal!

Það er náttúrulega ekki heilbrigt að sitja skjálfandi undir sæng og borða ís en nú er Kuldaboli búinn að spilla fyrir mér mörgum dögum og ég ætla ekki að láta hann hafa af mér ánægjuna af því að borða ís.