Kennum reykingar í grunnskólum

´reykingarReykingar eru stór þáttur í lífi Íslendinga. Í raun svo stór þáttur að það er hneykslanlegt að reykingakennsla skuli ekki löngu hafa verið tekin upp í skólum landsins. Hvernig stendur á því að börn eru ekki frædd um sögu reykinga, áhrif þeirra á menningu okkar, táknrænt mikilvægi þeirra í kvenfrelsisbaráttunni og þá fróun sem reykingar gefa í erfiðleikum? Halda áfram að lesa

Ljóta vitleysan

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst meira svekkjandi, þegar ég er búin með sunnudagskrossgátuna fyrir kl 10 á sunnudegi eða þegar öll vikan dugar mér ekki til að klára hana. Mig vantar ennþá tvö orð frá síðustu viku en lauk við nýju gátuna á mettíma. Samt held ég að gamla gátan sé ekkert þyngri. Bara einhver hugarflæðisstífla í mér. Ég er ekki búin að skoða lausnina á síðustu gátu en nú langar mig samt ekkert að ráða hana lengur. Halda áfram að lesa

Eilífðarmálin

Við Hugz erum eiginlega komin út fyrir efni þessarar færslu svo ég ákvað að svara með nýrri.

Ef þig vantar ekki þjónustu (reyndar er flest fólk tilbúið til að nýta sér þjónustu þegar hún er í boði)en hefur samt þörf fyrir návist kvensniptar gæti skýringin verið:
a)þér finnst skemmtilegt að hafa félagsskap í rúminu
b) þig langar að eiga sálufélaga.

Það er yfirleitt af þessum ástæðum sem flest fólk vill eiga maka. Munurinn á körlum og konum er sá að meirihluti karla vill helst eiga marga maka í einu og finnst ekkert mál að skipta um bæði bólfélaga og sálufélaga eins og nærbuxur. Konur eru oft voða mikið fyrir að tengja þetta tvennt einhvernveginn saman og búa til bigg-díl úr því enda er það eðli þeirra að flækja alla hluti ef þess er nokkur kostur.

Venjuleg, ringlhugsandi kona hefur þessa leiðindatilhneigingu til að trúa því að bara vegna þess að karlmaður hefur sofið hjá henni, trúað henni fyrir sínum innstu hjartans leyndarmálum, þegið þjónustu hennar, borðað frítt heima hjá henni vikum saman, myndað tengsl við börnin hennar og hundinn og sagt henni að hann elski hana, þá eigi hún þar með rétt á því að hann haldi sambandi við hana og sinni þörfum hennar þegar HÚN þarf á félagsskap að halda en ekki bara hann. Það er þessi eignarhaldstilhneiging kvenna sem gerir út af við flest sambönd.

Það sem mér finnst athyglisverðast við hinn dæmigerða karl er að honum finnst yfirleitt (þrátt fyrir frjálslyndi sitt gagnvart sjálfum sér) að konurnar sem sinna sálgæslu hans og kynþörf ættu ekki að mynda náin tengsl við aðra karlmenn. Þeim finnst líka gjarnan að þótt þeir sjálfir hafi þörf fyrir öryggi, blíðu, athygli, samúð, hvatningu, viðurkenningu og hughreystingu þá komi þeim lítið við þótt konurnar sem þeir skvetta í hafi þessar sömu þarfir.

Karlmenn líta nefnilega oftast á konur sem mjög fjölhæfar verur en sjálfa sig sem sérhæfða.

 

Grimmd araba

Grimmd araba er yfirgengileg. Þeir fremja hefndardráp á fjöldamorðingjum. Það er nú eitthvað annað en Bandaríkjamenn. Þegar þeir lífláta sakamenn þá er það ekki af hefndarhug heldur af… Já. Allavega er það ekki hefnd. Meira svona… Já. Svo við höldum okkur nú við efnið; grimmd araba semsé…

Fleiri raunveruleikaþætti

Bjartsýniskonan í mér trúir því að til séu karlar sem þurfa ekki að láta draga sig á asnaeyrunum til að sýna lágmarks kurteisi. Ég trúi jafnvel á tilvist karlmanns sem höndlar þá hugmynd að konur ríði einfaldlega af því þær hafi líka kynhvöt en ekki af því að þær séu svo „örvæntingarfullar“ (merkilegt nokk þá virðist kynhvöt karla eða giftra kvenna ekki flokkast sem „örvænting“) að þær séu tilbúnar til að þóknast duttlungum hins útvalda. Að vísu hef ég aldrei hitt þessháttar mann en ég hef heldur aldrei séð hvítan hrafn.

Ég veit að til eru konur sem nenna ekki að leyna þörf sinni fyrir að hafa á hreinu hvort þær eiga kærasta eða ekki. Konur sem vilja frekar vera einar en að standa í því að setja á svið eltingarleik til að þóknast veiðiþörf eilífðarblómsins eða slökkva á símanum af og til bara til að halda prinsinum svolítið óöruggum. Konur sem finnst dálítið skrýtið að flestar konur sem skrifa kennslubækur um það hvernig skuli landa eintaki af tegundinni hómó erectus, skuli sjálfar vera ógiptar.

Ef einhverjum dettur í huga að framleiða stefnumótaþátt fyrir fólk með þessa alvarlegu persónubresti þá er ég til í að skrá mig.