Anda léttar

Byltingin búinn að gefa sig fram eftir allt of langt sambandsleysi. Ég var farin að hafa áhyggjur en snillingarnir í Saving Iceland höf’ðu upp á honum. Hvaða heilastöð ætli að þurfi að meðhöndla til að koma honum almennilega í skilning um að orðið „týndur“, merkir ekki „þegar þú ert einn uppi á hálendinu í vondu veðri og ratar ekki heim“ eða „þegar mannræningjar hafa flutt þig nauðugan til Venesúela og skorið af þér litlu tána,“ heldur bara einfaldlega „þegar mamma þín veit ekki hvar þú ert“?

Hann er allavega staddur í Reading og allt í lagi með hann. Ætlar að senda tölvupóst seinna í dag.

 

Deep throat

breiðavik

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nú hefur Kastljósið klæmst á Breiðavíkurdramanu þrjú kvöld í röð. Mesti safinn búinn úr Byrginu í bili og allir búnir að fá nóg af því að runkast á heyrnleysingjanauðgunum.

Trendið er greinilega: níðingsháttur gagnvart smælingjum (með séstakri áherslu á kynferðislegan subbuskap) í skjóli ábyrgðarlausra yfirvalda. Útfært með tilbrigðum. Búið að dekka fatlaða, fíkla, börn. Ég spái því að næst verði klæmst á aðbúnaði á Kleppi fyrr á árum -og að sjálfsögðu verður boðið upp á safaríkar nauðganasögur þaðan. Frá Kleppi beint yfir í gamalmenni sem voru svelt, illa skeind og kynferðislega misnotuð á einhverju hjúkrunarheimili. Þar næst kemst upp um sláturhúsaperra með kvalalosta. Þar næst verður skítahrærivélin færð í einhvern annan flokk fötlunar, líklega verður Kópavogshælið afhjúpað með tilheyrandi skítarunki.

Allt undir því yfirskini að svona hlutir megi ekki endurtaka sig, þótt augljóslega sé tilgangurinn sá að markaðssetja efni sem höfðar svo sterklega til hinna lægstu hvata mannskepnunnar; að fróa veraldarangist sinni með harmaklámi og finna til sín með því að hneykslast á vömmum og skömmum náungans.

Pabbar geta andskotinn hafi það grenjað ef þá langar til

grenj

Hvaðan kemur sú hugmynd að karlmenn hafi í gegnum tíðina verið tilfinningabældari en konur, og af hverju nýtur þessi ranghugmynd svona mikilla vinsælda?

Karlar máttu ekki sýna merki um ótta, mikið rétt. En konur máttu heldur ekki sýna merki um frelsisþrá, hvað þá losta. Karlar áttu að bera harm sinn í hljóði og konur áttu að kyngja reiðinni.

Það eimir eftir af þessum viðhorfum ennþá. Það þykir ekki kvenlegt að slást og ég hugsa að flestir karlar reyni fremur að harka af sér en að skæla á almannafæri. Ég get samt ekki séð að karlar búi við neitt meiri bælingu en konur. Eða hver hefur eiginlega bannað þeim að grenja?

Halda áfram að lesa

Heildræn hryggsúla

hryggsúla

Hvaða fáráður innleiddi orðs-krípið „heildrænt“ í íslensku? Færið mér hann og ég mun bíta af honum hausinn.

-Einhverju sinni sinni auglýsti bílaþvottastöð „heildræn bílaþrif“.
-Einu sinni sá ég auglýst einhverskonar jóganámskeið sem átti að fela í sér „heildrænar lausnir í bakverkjum“. Ekki einu sinni við bakverkjum heldur í þeim.

Heildræn hryggsúla held ég þó að slái öllu út.

 

 

Kerfið ræður

Nornin: Ég var að skoða yfirlitið frá þér og sumar tölurnar stemma ekki við blaðið sem ég er með fyrir framan mig.
Þjónustuaðili: Nú? Hvernig getur staðið á því?
Nornin: Já það er nú einmitt það sem ég er að velta fyrir mér. Hvernig fannstu þessar tölur?
Þjónustuaðili: Þetta bara spýttist svona úr prentaranum.
(Ég fann að ég varð skrýtin á svipinn)

Nornin: Jaaaaá, en þá hljóta tölurnar að vera svona í skjalinu. Ekki prentar hann eitthvað annað en stendur þar?
Þjónustuaðili: Nei, þetta er eins hjá mér, tölvan vill hafa þetta svona, munar miklu?
Nornin: Nei, nei, þetta munar ekki nema nokkrum krónum, ekkert stórmál en ég vil samt hafa þetta rétt svo við þurfum að finna villuna. Hvar fékkst þú þessar tölur?
Þjónustuaðili: Ég veit það ekki almennilega. Þetta er bara svona í kerfinu.

Alltaf finnst nú leiðrétting á endanum en já, mér finnst ég ennþá vera dálítið skrýtin á svipinn.

Aldagamlar lækningaaðferðir

skottuHvernig stendur á því að um leið og við eltum ólar við allar tækninýjungar á markaðnum, ríkir mikil hrifing á aldagömlum lækningaaðferðum? Talsmenn náttúrulækninga halda því gjarnan á lofti að aðferðirnar séu fornar, rétt eins og það tryggi gæðin. Mér finnst þetta mjög flippað því hrifning á fortíðinni tengist yfirleitt söguskilningi og listhneigð en ekki gagnsemi í nútímanum. Við hrífumst af gömlum dómkirkjum og skinnhandritum vegna þess að þau bera vott um afrek þess tíma. Halda áfram að lesa