Myndi það hræða þig?

-Ef ég gæti lesið hugsanir þínar, myndi það hræða þig?
-Nei.
-Flestum þætti það ógnvekjandi.
-Mér þætti það líka gagnvart mörgum öðrum.
-En af hverju ekki mér?
-Af því að ég held að ef þú hefðir stjórn á því þá myndirðu ekkert gera það nema af mjög góðri ástæðu. Ekki frekar en þú hnýsist í lokuð skjöl í tölvunni minni þótt þú sért alveg í aðstöðu til þess.
-En ef ég hefði ekki stjórn á því, læsi þig bara eins og opna bók? Þætti þér það kannski bara gott?
-Stöku sinnum þætti mér það áreiðanlega gott og stundum þætti mér það óþægilegt, færi auðvitað eftir því hvað ég væri að hugsa. Það myndi samt ekki hræða mig. Ég hugsa ekkert sem ég held að gæti ofboðið þér og ég hef enga trú á því að þú myndir misnota það sem þú sæir.

Og nú veit ég, yndið mitt, að þú lest þennan texta, þótt þú lesir vefbókina mína ekki alla jafna. Af því að í dag veistu ekki alveg fullkomlega hvar þú hefur mig. Það er alltaf svolítið óþægilegt. Hefurðu velt því fyrir þér hversvegna þú ert stöðugt að fiska eftir staðfestingu á trausti mínu? Af hverju skiptir það þig svona miklu máli og hvern ertu að reyna að sannfæra? Sjálfan þig? Mig? Og um hvað? Að ég treysti þér? Eða að þér sé treystandi?

Hefurðu hugsað dálítið um það í dag hversvegna ég spurði þig ekki hvað þér þætti um það ef ég gæti lesið hugsanir þínar?
Heldurðu að ef gæti það myndi ég gera það?
Heldurðu að ég geti það?
Heldurðu að ég geri það?

Líklega þekkirðu mig nógu vel til að vita að ef ég gæti lesið þig eins og opna bók, væri ég samt ekki svo vitlaus að segja þér frá því.

Held ég að það myndi hræða þig?
Held ég það?

Ójá elskulegur. Ég held að það yrði þokkalegt stólpípudæmi.

One thought on “Myndi það hræða þig?

  1. —————————

    And if my thought-dreams could be seen
    They’d probably put my head in a guillotine
    But it’s alright, Ma, it’s life, and life only.

    Posted by: Hugz | 5.02.2007 | 20:19:20

Lokað er á athugasemdir.