Missti trúna

Ég hefði varla trúað því að óreyndu að ég tæki skilnað fólks sem kemur mér ekkert við svona nærri mér. Ég er heldur ekkert svo uppvæg yfir fjölskylduharmleiknum, þau setja áreiðanlega alveg nóg púður í hann sjálf, það er öllu heldur geðshræringin yfir því að trú mín á ástina hefur skaddast enn eina ferðina og var hún örótt fyrir. Halda áfram að lesa

Köstum hækjunni

Ármann Jakobsson skrifar það skynsamlegasta sem ég hef nokkurntíma lesið um samkynhneigð og frjálsar ástir. Greinin birtist á Múrnum í gær.

Reyndar þyrfti ég líklega stranga sálfræðilega innrætingu til að langa til að sofa hjá konu, eldri borgara eða Suður-Afríkana en mér er eiginlega nokk sama hvort smekkur minn ræðst af genum eða einhverju öðru. Auk þess ætti manni að vera frjálst að skipta um skoðun á þessu sem öðru. Ég tek því undir með Ármanni. Við þurfum ekki genaskýringu eða aðra hækju til að afnema afskiptasemi ríkisvaldsins af kynlífi og sambúðarformi.

Húsráð Lærlingsins

Nornin: Þetta er eitt af hinum tilvistarkreppandi vandamálum ríka mannsins. Ég hef gaman af því að fá vín með matnum eða rjómalíkjör með kaffinu af og til en ég get ekki drukkið mikið. Svo er áfengi nautnavara en ekki nauðsyn og þegar ég á fullt af útrunnu víni heima, finnst mér ekki siðferðilega stætt á því að kaupa nýtt.

Lærlingurinn: Þú þarft ekkert að henda því sem skemmist. Þú bara gefur rónunum það. Þeim er alveg saman þótt rjómalíkjörinn sé farinn að súrna eða vínið langstaðið. Þú ferð með gamalt brauð niður að tjörn og gefur öndunum og svo með gamalt vín upp á Arnarhól og gefur rónunum. Kaffihús og krossgáta á eftir. Yrði það ekki bara góður sunnudagur?

Kannski bara það. Og ég sem var næstum búin að henda tæpum lítra af rósavíni síðan um áramót. Að mér skyldi ekki detta þetta í hug sjálfri. Kannski ég rölti niður í Austurstræti og kaupi mér karamellulíkjör.

 

Mogginn með brúnt í buxunum

blaðamennskaMér finnst nú út af fyrir sig orka tvímælis að stór fréttamiðill bjóði almenningi að beintengja blogg við fréttir sínar og þegar sami miðill vísar sérstaklega í eina bloggfærslu af mörgum sem skrifaðar hafa verið um sama mál, dettur manni fyrst í hug að þar sé á ferðinni fræðileg, að a.m.k. málefnaleg umfjöllun.

Í þessu tilviki er það alls ekki raunin. Umrædd færsla er órökstuddur sleggjudómur yfir klámframleiðendum, Hótel Sögu og Icelandair. Vel má vera að þetta séu allt saman hin mestu skítafyrirtæki og ég get vel skilið að Sóleyju Tómasdóttur finnist þetta fólk ógeðfellt. Hún er líka í fullum rétti með að flíka tilfinningum sínum í garð þessa iðnaðar og þess tiltækis að halda klámþing á Íslandi, í sinni eigin vefbók. Ég skil hinsvegar ekki hvernig fréttamönnum Moggans dettur í hug að það sé viðeigandi að vísa í rakalausan tilfinningavaðal eins og hann væri fréttaskýring.