Klám er: „það sem ég vil ekki sjá“

haenur

Ég rakst á hreint út sagt stórkostlega skilgreiningu á klámi á vefsíðu Kristínar Tómasdóttur.

“Klám eru athafnir sem þú myndir ekki vilja vita af né sjá dóttur þína, systur eða sambærileg skyldmenni í.”

Sumt kemur manni bara ekki við

Ég játa nú bara á mig þann tepruskap að setja upp svartan skjá með „syntax error“ í hvert sinn sem hvarflar að mér að nánir ættingjar mínir séu kynverur. Ég „veit“ að systur mínar stunda kynlíf og kúka rétt eins og annað fólk. Ég kæri mig hinsvegar ekkert um nánari lýsingar á þeim athöfnum. Ég vildi heldur ekki vita af því ef þær væru klámmyndaleikkonur en ef þær færu út í þann bransa á eigin forsendum dytti mér heldur ekki í hug að skipta mér af því.

 

Við höfum engan rétt til að troða okkar smekk upp á nána ættingja

Vel má vera að systkini mín, foreldrar og synir hafi allt annan smekk á sviði kynlífs en ég sjálf. Kannski vill þetta fólk láta sleikja á sér eyrun, snúa upp á geirvörturnar á sér eða eitthvað annað sem mér finnst ógeðslegt. Mér finnst satt að segja hræðileg tilhugsun að nokkur manneskja verði fyrir þessháttar viðbjóði en það hvarflar nú samt ekki að mér að fara út í heilagt stríð gegn eyrnasleikjum.

Ég vildi gjarnan geta stjórnað lífi annarra en ég lít á það sem veikleika minn en ekki rétt. Ég vil ekki sjá að synir mínir vinni við álver. Ég vil ekki að systir mín reyki. Ég vil ekki að vinkona mín búi með óreglumanni. Mér þætti þetta allt niðurlægjandi fyrir þá sem eiga í hlut og vildi helst að þetta væri allt saman ólöglegt. Reyndar held ég að það sé mun hættulegra og meira niðurlægjandi að búa með virkum alkóhólista en að leika í klámmynd.

Ég vil heldur ekki vita af því ef einhver sem ég þekki leyfir einhverjum öðrum að snúa upp á geirvörtunar á sér en það getur þó varla talist klám og ekki kemur mér það við. Mér kemur nefnilega ekki við hvað fullorðið fólk velur fyrir sjálft sig og fyrr myndi ég skipta mér af skaðlegum neysluvenjum en því hvort fólkið mitt stríplast sjálfviljugt fyrir framan myndavél eða á sviði. Þótt ég sé með afskiptasamari manneskjum, er aðeins eitt sem gæti fengið mig til að álíta að mér kæmu kynferðislegar athafnir minna nánustu eitthvað við. Mér kæmi það við ef viðkomandi væri beitt/ur ofbeldi eða annarri nauðung.

 

Hvernig á þá að skilgreina klám?

Ég ætla ekki að reyna að skilgreina klám. Klám er ekki hægt að setja í lokaðan kassa, ekki fremur en ást, póstmódernisma eða frjálshyggju. Hugmyndir okkar um klám eru háðar tíma, menningu og persónulegum smekk. Ég segi því það sem haft var eftir Potter Stewart hæstaréttardómara í Bandaríkjunum árið 1964:

Ég get ekki skilgreint klám en ég þekki það þegar ég sé það.

Það er útilokað að náist nokkurntíma víðtæk sátt um þá upplifun.

 

8 thoughts on “Klám er: „það sem ég vil ekki sjá“

  1. ———————————————————-

    Ég kúka ekki!!!! Sætar stelpur hafa ekki hægðir…

    Posted by: Hullan | 16.02.2007 | 14:56:31

    ———————————————————-

    Það var reyndar dómari við hæstarétt Bandaríkjanna að nafni Potter Stewart sem sagði þetta árið 1964 „“I shall not today attempt further to define the kinds of material I understand to be embraced . . . [b]ut I know it when I see it“

    Mér finnst þetta annars eitt af þeim málum þar sem maður einfaldlega kýs með fótunum. Það væri afskaplega varasöm braut að fara banna slíkar samkomur hversu ógeðfelldar sem þær annars eru.

    Posted by: GVV | 16.02.2007 | 16:55:38

    ———————————————————-

    Það er aðeins ein verulega svæsin klámmynd til: hún birtist þegar við lítum kviknakin í spegil.

    Posted by: G | 17.02.2007 | 6:18:13

    ———————————————————-

    Mikið afskaplega hljótum við Davíð þá að vera í niðurlægjandi aðstöðu. Við búum hvort með öðru og erum súrrandi alkóhólistar. Ég held nú samt að líf mitt í dag eigi öllu betur við mig en klámmyndaleikur. Svona hugsum við nú öll ólíkt 😉

    Posted by: Þórunn Gréta | 18.02.2007 | 20:23:36

    ———————————————————-

    Ég harðneita að kalla fólk sem drekkur ekki alkóhólista. Þú ert ekki alkóhólisti nema áfengi stjórni lífi þínu. Sem það gerir augljóslega ekki ef þú sleppir því að gúlla því í þig. Ef fólki gengur betur að halda sig á mottunni með því að hengja „óvirkur“ fyrir framan er það bara fínt, en vandamál án afleiðinga er ekkert vandamál.

    Posted by: Eva | 18.02.2007 | 22:25:16

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.