-Er hann þá loksins farinn?
-Það lítur út fyrir það.
-Eva. Sorrý að ég skuli skipta mér af þessu en ólíkt fólk rennur stundum saman í eina persónu á blogginu þínu. Stundum veit ég ekki hvort þú ert að skrifa um mig, Elías eða einhvern annan, sagði hann og hljómaði eins og eitthvað væri athugavert við það.
Halda áfram að lesa
Að útrýma fátækt
Það er dálítið klaufalega að orði komist hjá forystumönnum flokksins míns þegar þeir segjast vilja útrýma fátækt á Íslandi. Allavega ættu menn að gera grein fyrir því hvað þeir eiga við með orðinu fátækt áður en þeir taka til við að útrýma fyrirbærinu. Fátækt er nefnilega eitt þeirra orða sem hafa enga merkingu nema í félagslegu samhengi. Bentu á fátækan Íslending og spurðu stéttlausan Indverja hvort hann sé fátækur. Sennilega yrði svarið nei. Samt sem áður þjáist þessi sami Íslendingur fyrir fátækt sína, eða kannski öllu heldur fyrir óréttlætið sem fylgir því að vera lágtekjumaður í samfélagi ríkra. Halda áfram að lesa
Hvernig þekkir maður jakkafatafasista?
Jakkafatafasisminn er án efa ógeðfelldasta stjórnmálaafl sem fyrirfinnst.
Munurinn á jakkafatafasisma og hefðbundnum fasisma er sá að jakkafatafasistinn viðurkennir ekki að hann sé fasisti. Jakkafatafasistinn trúir ekkert síður en hinn hefðbundni fasisti á yfirburði einnar þjóðar yfir annarri, einnar stéttar yfir annarri, stríðrekstur, heimsvaldastefnu og rétt ríkisins til að vera með nefið ofan í hvers manns koppi. Munurinn er hinsvegar sá að hann notar önnur orð.
Jakkafatafasita má þekkja af orðfari þeirra.
Nokkur dæmi úr orðabók jakkafatafasistans:
Frjálshyggja =Réttur þeirra ríku til að fá meira
Einstaklingshyggja =Meira er aldrei nóg
Einstaklingshyggja =Kynþáttamismunun
Einstaklingshyggja =Kynjamismunun
Einkavæðing =Klíkuskapur og spilling
Siðferði =Réttur kirkju og kristlinga til að skipta sér af lífsstíl annarra
Öfgamaður =Félagshyggjumaður
Öfgamaður =Náttúruverndarsinni
Varnir =Hernaður
Hryðjuverk =Örvæntingarfull viðleitni til að rísa gegn kúgun
Varnir gegn hryðjuverkum =Árás í eiginhagsmunaskini
Öryggissveit =Her
Friðargæsla =Her
Landnemar =Hernámslið
Landnám =Landrán
Eignaupptaka =Lögverndað rán
Stimpilgjöld =Lögverndað rán
Lántökugjöld =Lögverndað rán
Uppgreiðslugjöld =Lögverndað rán
Lýðræði =Réttur þeirra ríku til að heilaþvo almúgann með auglýsingum
Fjármögun =Skuldsetning
Endurfjármögnun =Meiri skuldasöfnun
Hagur heildarinnar =Hagur valdastéttarinnar
Mannréttindi =Furumflumm
Það sem greinir manninn frá öðrum dýrum er sá eiginleiki hans að vera aldrei fullkomlega sáttur við aðstæður sínar. Á meðan maðurinn hefur þann eiginleika verður alltaf einhver ójöfnuður og þar með verður fátækt (í þeim skilningi að hafa minna en meirihlutinn) við lýði. Þessháttar fátækt verður ekki útrýmt nema mannseðlið breytist. Þetta sér allt hugsandi fólk og það er handhægt fyrir jakkafatafasista að réttlæta þá miklu misskiptingu auðs og valda sem við sjáum allt í kringum okkur með því að fullkominn jöfnuður sé óframkvæmanlegur. Það sem gerir jakkafatafasistann hvað hættulegastan er það bullið í honum hljómar rökrétt
-Það er ákveðið réttlæti í því að þeir sem eru nógu klárir og útsjónarsamir til að verða sér úti um peninga án þess að vinna fyrir þeim, eigi að njóta þeirra hæfileika.
-Það er ákveðið réttlæti fólgið í þeirri hugmynd að þeir sem noti þjónustuna eigi að greiða fyrir hana.
-Það er skiljanlegt sjónarmið að fórna réttinum til einkalífs fyrir öryggi heildarinnar.
EN
-Það er líka ákveðið réttlæti fólgið í þeirri hugmynd að menn eigi að vinna fyrir laununum sínum.
-Það er réttlátt að allir fái tækifæri til að rækta hæfileika sína.
-Persónunjósnir þjóna sjaldnast þeim tilgangi að tryggja öryggi heildarinnar. Langoftast þjónar mikið ríkiseftirlit aðeins fámennri valdastétt.
Þessa og fleiri réttlætisþætti vill jakkafatafastinn sem allra minnst ræða
Það er eitthvað bogið við siðferði þess sem krefst þess að sjúklingar standi undir kostnaði við heilbrigðiskerfið og foreldrar greiði sjálfir fyrir menntun barna sinna en telur samt eðlilegt að þeir sem ekki þurfa á þessari þjónustu að halda hafi tekjur sem útheimta litla sem enga vinnu og greiði af þeim mun lægri skatt en hinn almenni launamaður. Þetta kengbogna siðferði er jakkafatafasismi í hnotskurn.
Ógnin
Gæti ekki hugsast að Íranir væru til í að hætta þessu úranrugli þegar bæði Bandaríkjaríkamenn og Ísraelsmenn eru búnir að samþykkja að eyða öllum sínum gereyðingarvopnum og gangast undir alþjóðlegt eftirlit með vopnaeign sinni og hergagnaframleiðslu? Ég held satt að segja að þeir yrðu bara dauðfegnir.
Ef það er heimsfriður sem Bússa og félögum er svona umhugað um, þá hljóta þeir að bjóða upp á það einkar sanngjarna samkomulag. Mér hrís hugur við tilhugsuninni um að kjarorkuvopnaframleiðslu, hvort sem er í Íran eða annarsstaðar en það er ekki við því að búast að nokkur þjóð sé sátt við það að fá ekki tækifæri til að verja sig gegn stórveldi sem hefur hvað eftir annað valtað yfir aðrar þjóðir í nafni Gvuðs og mannréttinda og á í fórum sínum fleiri kjarnorkusprengjur en nokkur önnur þjóð.
Það er ekki siðleysi Írana sem ógnar veröldinni, heldur sértæk frekjuröskun yfirvalda í Bandaríkjunum.
Frekja
Viku eða 10 dögum fyrir páska var ægilega fínum sportbíl lagt við Norðurstíginn, þannig að hann tók tvö stæði. Ég fann ygglibrúnina síga þegar ég sá hann en tók þá eftir því að eitt dekkið var sprungið. Ég hugsaði sem svo að eigandinn hlyti að hafa lent í vandræðum og væri væntanlegur á hverri stundu með nýtt dekk og myndi svo færa bílinn. Þar skjátlaðist mér. Halda áfram að lesa
Páskafrí útrunnið
Notaði páskana til að þrífa hólf og lakka gólf. Gerði reyndar líka fleira, fór t.d. á leiksýninguna „Epli og eikur“ hjá Hugleik, alltaf gaman að þeim. Fór í mat á Selfoss til pabba og Rögnu á föstudaginn langa. Prísa mig sæla fyrir að vera ekki í mat hjá Rögnu á hverjum degi því það væri vís leið til að koma mér upp krónískri átfíkn. Ég er ennþá södd en reyndar gætu kjúklingabringurnar sem Sigrún eldaði ofan í mig í gær og keisaralega páskaeggið sem Stefán færði mér frá útlandinu haft einhver áhrif. Fyrir nú utan allar kaloríurnar sem Elías er búinn að troða í mig en hann hefur reyndar líka lagt sitt af mörkum til að láta mig brenna þeim aftur og það fannst mér nú skemmtilegt.
Þótt sé góð tilbreyting að hafa búðina lokaða og dunda bara við að lakka og þrífa er samt varla hægt að kalla það páskafrí. Ég er ákveðin í því að taka mér frí fyrstu helgina í júní. Svona alvöru frí, fara burt heila helgi. Ég veit reyndar ekkert hvert ég ætla. Nenni varla austur fyrir svona stuttan tíma en þar sem ég verð þá flutt í kjallarann á Vesturgötunni, kemur ekki til greina að vera heima í því fríi.
Afsakið …
Mér finnst alltaf skrýtið þegar fólk biðst afsökunar á því að hafa ekki bloggað lengi. Ég gæti kannski skilið það ef bloggið væri eina færa leiðin til að láta nánustu aðstandendur vita að maður sé á lífi en þeir sem eru í aðstöðu til að blogga geta nú yfirleitt líka sent tölvupóst. Það liggur því beinast við að álykta að fólk sé að biðjast forláts á því að hafa ekki sinnt þeirri borgaralegu skyldu sinni að vera kunningjum sem og ókunnugum til afþreyingar. Upplifir fólk virkilega vefbókina sem kvöð? Eitthvað sem maður skrifar af skyldurækni fremur en sjálfum sér til ánægju? Halda áfram að lesa