Álög dagsins

Legg ég svo á og mæli um, að þegar óbermið hún Rannveig verður látin róa (en þess mun ekki langt að bíða) þá rifjist rækilega upp fyrir henni framkoma hennar við hann pabba minn og fleiri grandvara sómamenn, þegar hún tók sitt fyrsta páerflipp í embættinu hér um árið.

Hjartaþemba

Ég man sjaldan drauma og þeir sem ég man eru oftar en ekki samhengislaust rugl. En í nótt dreymdi mig að ég væri að tala við Ómar Ragnarsson. Ég tek fram að ég ber mikla virðingu fyrir Ómari. Enginn hefur kynnt íslenska náttúru jafn vel fyrir þjóðinni og ég efast um að náttúruverndarsinnar ættu marga fylgjendur ef ekki væri fyrir hans tilstilli.
Halda áfram að lesa

Níðstöngin stendur enn

444608AJón Sigurðsson hefur líklega frétt af því að til stæði að fara með særingar gegn stóriðjustefnunni, því þegar ég mætti á Austurvöll í gærkvöld, var hann búinn að ná sér í þessa líka fínu níðstöng. Ég er ekkert hissa því það ógnar auðvitað sjálfstæði þjóðarinnar ef örfá risafyrirtæki yfirtaka allt atvinnulíf. Ég ók þarna fram hjá rétt áðan og hann heldur ennþá á stönginni og beinir henni að þinghúsinu. Halda áfram að lesa

Garl

Hahh! Veðrugaldurinn tókst. Okkur tókst líka að redda öllu sem við héldum að myndi ekki reddast.

Svarti galdur á Austurvelli eftir rúman hálftíma.

 

Ef líf mitt væri fullkomið…

…þá ætti ég t.d. kærasta sem myndi vakna kl 6 á frídeginum sínum, til að gleðja mig og fara svo fram úr og laga handa mér kaffi.

Sumt er bara of gott til að vera satt en svona maður er til, í alvöru!
Þetta verður góður dagur.

Allt að gerast

Allar aktivistahreyfingar ættu að eiga a.m.k. eina ömmu. Okkar amma fann lausn á þessu með blóðið. Allt er að skríða saman og svo er líka nýtt tungl. Ég hef nú svosem ekkert auglýst þetta en vona að mínir dyggustu lesendur mæti og taki þátt í galdrinum því það þarf mikinn ofsa til að vinna á stóriðjuþursinum.

Og nei, þetta er ekki grín.

Svarti galdur og opinber flenging á Austurvelli

Í tilefni af gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar mun ég með dyggri aðstoð nokkurra félaga minna, fremja svarta galdur á Austurvelli, föstudagskvöldið 9. nóvember kl 20:00.

Ætlunin er að særa fram álfa, tröll og fleiri vættir. Ég mun eggja þær til að leggja baráttunni gegn stóriðjustefnunni lið og kalla bölvun yfir orkufyrirtækin, álrisana og hverja þá ríkisstjórn sem gefur leyfi fyrir stórkostlegri eyðleggingu á náttúru Íslands.

Einnig ætlar íslensk alþýðukona að mæta á staðinn og rassskella þá þingmenn sem bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun.

Gert er ráð fyrir að dagskráin standi í um 20 mínútur. Hvur sem vill getur tekið þátt í athöfninni með því að mæta á staðinn og taka þátt í því að vekja vættirnar með því að klappa lófum, stappa fótum, dansa, hoppa, hrópa eða gala. Athugið þó að athöfnin gæti vakið ungum börnum og fullorðnum grenjuskjóðum óhug.