Svarti galdur og opinber flenging á Austurvelli

Í tilefni af gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar mun ég með dyggri aðstoð nokkurra félaga minna, fremja svarta galdur á Austurvelli, föstudagskvöldið 9. nóvember kl 20:00.

Ætlunin er að særa fram álfa, tröll og fleiri vættir. Ég mun eggja þær til að leggja baráttunni gegn stóriðjustefnunni lið og kalla bölvun yfir orkufyrirtækin, álrisana og hverja þá ríkisstjórn sem gefur leyfi fyrir stórkostlegri eyðleggingu á náttúru Íslands.

Einnig ætlar íslensk alþýðukona að mæta á staðinn og rassskella þá þingmenn sem bera ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun.

Gert er ráð fyrir að dagskráin standi í um 20 mínútur. Hvur sem vill getur tekið þátt í athöfninni með því að mæta á staðinn og taka þátt í því að vekja vættirnar með því að klappa lófum, stappa fótum, dansa, hoppa, hrópa eða gala. Athugið þó að athöfnin gæti vakið ungum börnum og fullorðnum grenjuskjóðum óhug.