Háð

Andardráttur vakandi manns. Andardráttur sofandi manns. Lyktin af einhverjum sem er stærri og sterkari en maður sjálfur. Síðasta syfjaða góða-nótt hvíslið áður en maður líður inn í svefninn. Að rumska við leitandi snertingu sofandi handar, sem er bara að ganga úr skugga um að maður sé örugglega nálægur. Snerting kviðar við bak. Fólk hlýtur að vera nokkuð góðir vinir þegar því er farið að finnast svo ágætt að límast saman á svitanum, að það hefur ekki fyrir því að fara í náttföt eða leggja lak á milli sín.

Við systurnar bökuðum okkur pizzu og drukkum rauðvín í kvöld, spiluðum krossgátuspil og ræddum heimsmálin, trúarbrögð og heimsku mannanna. Hún ætlar að koma með á Vantrúarbingóið á morgun (eða öllu heldur í dag). Ég er löngu komin heim en á eitthvað erfitt með að koma mér í rúmið. Ég hef verið svo mikið hjá Pegasusi undanfarið að ég er að verða háð því að sofna hjá honum. Röklega séð er það óheillavænleg þróun.

 

Fermingarmessa

Leónóra (tæpra 7 ára): Pabbi, af hverju er fólkið alltaf að standa upp?
Pabbi hennar: Af því að annars myndu allir sofna.

Eitt lítið hugs um listamenn

Í gærkvöld endurvakti Walter hjá mér spurningu sem ég hef ekki leitt hugann að lengi. Við vorum að hlusta á James Blunt og Walter hafði á orði að hann virti Blunt ennþá meira, af því að hann hefði áhugaverða lífsreynslu og væri ekki á kafi í dópi. Halda áfram að lesa

Síðasta kvöldmáltíðin

Dauðadæmdi fanginn var einkar jákvæður maður. Hann valdi sér bigmakk með frönskum og kokteilsósu til að gúlla í sig fyrir svefninn langa og dásamaði heppni sína. Flestir fá nefnilega ekki tækifæri til að velja síðustu máltíðina sína, sem í mörgum tilvikum er hafragrautur með sveskjum eða jógúrtsull, ásamt mjólk úr stútkönnu, næringarsprautu og hálfu kg af pillum.

Eftir stendur spurningin um það hvað maðurinn var eiginlega að pæla með þessu vali sínu. Hann mátti nefnilega alveg fá eitthvað almennilegt.

Eitt sem ég veit ekki en langar að vita: Geta dauðadæmdir fangar pantað vín með síðustu máltíðinni sinni?

 

Árangur

Ég get hlaupið. Vííí!

Hingað til hef ég ekki getað hlaupið nema 1-2 mínútur án þess að standa á öndinni. Var alveg jafn léleg í gær og hina dagana, komin með astmaandardrátt um leið. Var frekar óánægð því þegar ég fór í ræktina í sumar, tók það mig ekki nema viku að ná upp nógu góðu þoli til að geta hlaupið. Halda áfram að lesa

Feitar kjeddlingar

doveMér brá ponkulítið í fyrsta sinn sem ég sá brúnkukremsauglýsinguna frá Dove.

Feitar kerlingar í húðvöruauglýsingu, það er eitthvað nýtt. Á hálfri sekúndu áttaði ég mig þó á því að engin þeirra er feit. þær eru þvert á móti grannar. Vafalaust í neðstu mörkum kjörþyngdar. Eins og ég. Halda áfram að lesa