Eitt lítið hugs um listamenn

Í gærkvöld endurvakti Walter hjá mér spurningu sem ég hef ekki leitt hugann að lengi. Við vorum að hlusta á James Blunt og Walter hafði á orði að hann virti Blunt ennþá meira, af því að hann hefði áhugaverða lífsreynslu og væri ekki á kafi í dópi.

Nú get ég af hjarta tekið undir það sjónarmið að fólk sem lifir heilbrigðu lífi og hefur lagt sig í hættu til að hjálpa öðrum er yfirhöfuð virðingarverðara en dópistar og aðrir eymingjar en staðreyndin er nú samt sú að margir af virtustu listamönnum sögunnar hafa verið sjálflægari en andskotinn og/eða á kafi í rugli og oft geðveikir í þokkabót. Hvort er orsakasamhengi þar á milli get ég ekki dæmt um.

Lífið er ekki réttlátt. Vinnusamasta fólkið er t.d. ekki endilega það ríkasta og heilbrigðustu listamennirnir njóta ekki endilega mestrar virðingar. Nú liggur í augum uppi að lífsreynsla og líferni móta listamenn en ég hef verið að velta því fyrir mér síðan í gær, hversu mikil áhrif þessir þættir hafa á gæði þeirra.

Halldór Laxness gat lýst tilfinningalífi sveltandi unglingstelpu og sett sig í spor barins gamalmennis, þótt hann væri alinn upp sem dekurrófa og þyrti síst að hafa meira fyrir lífinu en samferðarmenn hans. Wolfgang Amadeus Mozart sem drakk sér til óbóta, reið framhjá konunni sinni úti um allar koppagrundir og olli fjölskyldu sinni ómældum þjáningum, samdi tónlist sem kemur harðasta efasemdamanni í trúarlegt ástand. Vincent Van Gogh var ekkert annað en ógæfumaður, sem lengst af lifði sníkjulífi á bróður sínum og sleppti sér í trúarrugli, löngu áður en hann fór á geðinu og þó er vart til sá heimilishundur sem ekki þekkir handbragðið hans í dag.

Hvað gerir mann að frábærum listamanni? Ekki það hversu virðingarverðu lífi hann lifir, svo mikið er víst. Hefði James Blunt orðið verri tónlistarmaður ef hann hefði aldrei séð sundurtætt lík? Þurfti hann að upplifa stríð til að geta ort No Bravery? Það er ég ekki viss um og ég efast stórlega um að hann nyti minni virðingar sem listamaður þótt hann hefði aldrei tekist á við neitt ógeðfelldara en að fara út með ruslið. Er James Blunt virtur vegna þess hvaða mann hann hefur að geyma eða þrátt fyrir hann? Ég get bara svarað fyrir mig; mér finnst meira til hans koma sem manneskju þegar ég veit eitthvað ponkulítið um sögu hans en þótt hann væri vesalingur og dópisti myndi ég sennilega hlusta á hann samt.

Já og PS, útvarpsgaukurinn á X-inu, sem gubbar yfir James Blunt í blöðunum í dag hefur vondan smekk og vinnur á vondri útvarpsstöð. Bara svo það sé á hreinu.

 

One thought on “Eitt lítið hugs um listamenn

  1. ————————–

     Yndisleg fegurð í texta, tónum, myndum og vísindum er búin til af heilum sem eru þannig víraðir frá fæðingu. Líferni þeirra virðist ekkert hemja þessa snillinga í að gleðja þá sem hafa það eitt til brunns að bera að geta skynjað en ekki skapað.
    Posted by: Guðjón Viðar | 20.03.2008 | 21:12:51

    —   —  —

    Kannski heyrum við meira um einkalíf þeirra listamanna sem eru „í ruglinu“. En ég held að þeir eigi flestir sameiginlegt sem eru í listum að byrja barnungir að sinna sköpuninni. Allavega eiga allir þeir leikarar og leikstjórar sem ég hef skrifað um það sameiginlegt.

    Posted by: Sigga | 20.03.2008 | 21:45:11

Lokað er á athugasemdir.