Feitar kjeddlingar

doveMér brá ponkulítið í fyrsta sinn sem ég sá brúnkukremsauglýsinguna frá Dove.

Feitar kerlingar í húðvöruauglýsingu, það er eitthvað nýtt. Á hálfri sekúndu áttaði ég mig þó á því að engin þeirra er feit. þær eru þvert á móti grannar. Vafalaust í neðstu mörkum kjörþyngdar. Eins og ég.

Ég hef afskaplega lítinn áhuga á tísku og engan á fræga fólkinu. Samt er ég orðin svo vön því að tengja humyndina um fegurð og heilbrigði við grindhoraða unglinga að þegar ég horfi á grannar, heilbrigðar konur um þrítugt, hugsa ég ósjálfrátt „feitar kjeddlingar“.

Ég er fertug. Ég er grönn. Nánar tiltekið 46 kg og 20 grömm. Ég er svo grönn að ef ég missi 1 kg verða brjóstin á mér eins og tómir pokar. Samt er ég með töluvert stærri rass og breiðari læri en ég kæri mig um. Ég er satt að segja með samskonar fitukepp undir rassinum og þetta eldgamla kyntákn og trúið mér, ég myndi fórna miklu, jafnvel hætta að borða súkkulaði ef ég gæti losnað við hann með því.

rita

Eðlileg kona er með þykkara fitulag á lærum og rassi en eðlilegur karl. Og eðlilegar konur eru ekki fagrar. Segir tískulöggan. Eina leiðin til að ég geti orðið fullkomin í laginu er sú að gera það sama og allar hinar fullkomnu konurnar, að stofna heilsu minni í hættu með því að grennast of mikið og gangast svo undir skurðaðgerð, með svæfingu og tilheyrandi áhættu, til að láta setja á mig brjóst. Ég er ekki svo galin að láta verða af því en ég skil vel þá tilfinningu sem knýr konur til þess. Fyrir konu með læraspiksgenið er einfaldlega ekkert annað sem virkar.

Ég hef ekki trú á því að banvæn tilfelli af anorexíu verði nokkuntíma að mjög útbreiddu vandamáli. Ég held bara að þörfin fyrir næringu og góða heilsu hafi alltaf yfirhöndina hjá langflestum. Þar fyrir held ég að fyrst ég sjálf, sem er fullorðin, á ekkert átrúnaðargoð (nema uððitað Mammon en hann er nú ekki með silikon) og á að teljast þokkalega rökhugsandi, er undir svona fáránlega sterkum áhrifum af óraunhæfum kynþokkaímyndum, sé hreinlega ekki hægt að búast við því að venjuleg, grönn og sæt unglingstelpa geti horft í spegilinn og dáðst að fegurð sinni í einlægni.

Myndu konur eins og Marilyn Monroe og Rita Hayworth fá vinnu í módelbransanum í dag? Það efa ég. Þær voru bara of feitar til að vera gjaldgengar í dag. Dove fyrirtækið hefur sennilega tekið töluverða áhættu með því að beygja sig ekki undir staðalmyndina og sýna feitar kjeddlingar, jafn feitar og Ritu og Marilyn, í stað beintálgaðrar telpu. Ég átti húðvörur á lager þegar ég sá þessar auglýsingar fyrst en nú er mig farið að vanta inn í kremsafnið. Ég ætla að kaupa það sem mig vantar frá Dove.

 

One thought on “Feitar kjeddlingar

  1. ————————————-

    Ég tala svo sem bara fyrir sjálfan mig, en þetta tálgaða smástelpulúkk gerir sko ekkert fyrir mig. mér finnst það ljótt. Ég vil konu með karakter og sál, hún má alveg hafa ör og sögu.

    Posted by: HT | 18.03.2008 | 12:17:47

    ————————————-

    Það var einu sinni gerð könnun í US. Risastórt skilti var reist við fjölfarna hraðbraut í bandaríkjunum og á báðum hliðum skiltisins var sama myndin af konu sem var í bikiníi. Ég man þetta ekki í smáatriðum en á einni hliðinni stóð „I need to loose weight“ og á hinni stóð „I’m sexy“.

    Þetta var kona í stærð 12 eða 14 minnir mig.

    Vegfærendur voru spurðir hvað þeim fyndist um konuna. Þeir sem höfðu séð „I need to loose weight“ hlið skiltisins fannst hún of feit. Þeir sem sáu „I’m sexy“ textann við sömu mynd.. fannst konan sexý.

    Sexý er state of mind og af því þú minnist á Marilyn Monroe.. þá er sambærilega vaxin kona mjög fræg í dag. Monica Bellucci.
    http://tinyurl.com/yptg8x

    Hún hefur einmitt sagt að konur eigi að vera með rass og mjaðmir og að hún sé ánægð með sig. HÚN er ánægð með sig og það skilar sér. Hún er sexý.

    Hún er reyndar drop dead gorgeous kona. Ég veit ekki um einn karlmann sem myndi ekki vilja eyða nótt með þessari leikkonu. Hún er hinsvegar langt frá því að vera í stærð 8.

    Sem betur fer er harðkóðað í flesta eðlilega karlmenn að vilja mjaðmir, læri og brjóst. Náttúran sér nefnilega um sína og konur sem hafa vöxt eru frjóari en konur sem eru eins og tannstöngull í laginu. Þessu halda vísindamenn allavega fram og einhverra hluta vegna þá höldum við áfram að fjölga okkur þó þorri kvenna líti akkúrat út eins og konurnar í auglýsingunni frá Dove en ekki eins og unglingsdrengir eftir ár í fangabúðum.

    ps. Ef þú kaupir svona brúnkukrem frá Dove og hanska til að bera það á þig frá Bodyshop, þá er þetta eitt besta brúnkukrem sem ég hef notað – þ.e. þú verður ekki hálf svört, færð bara fallegan gylltann blæ á húðina. 🙂

    Posted by: anna | 18.03.2008 | 12:33:14

Lokað er á athugasemdir.