Hvað ertu að hugsa?

Ég hef tekið eftir því að karlmönnum finnst yfirleitt afskaplega óþægilegt að vera spurðir að því hvað þeir séu að hugsa. Sem segir mér að svarið hljóti að vera einkar athyglisvert. Vinkona mín segir að það sé bara vegna þess að þeir séu að hugsa um kynlíf og reikni með óþægilegum spurningum um persónur og leikendur ef þeir viðurkenni að þeir verji að jafnaði 15 klst á dag til þess að hugsa um riðlirí. Mér finnst þetta ótrúlegt. Kynlíf er ágætt en einfaldlega ekki nógu áhugavert til að nokkur nenni að hugsa um það stöðugt.

Ég hef prófað að spyrja Pegasus hvað hann sé að hugsa en hef ekki fengið neitt betri svör en frá fyrri elskhugum. Samt veit ég að hann hlýtur að vera að hugsa eitthvað afskaplega merkilegt því hann hikar alltaf pínulítið, áður en hann svarar því til að hann sé að hugsa um einhvað lítt áhugavert, eins og t.d. tebollann sinn eða hvort verði gott flugveður í dag. Maður hefði haldið að slík svör krefðust ekki sérstakrar umhugsunar.

Mér finnst spurningin um það hvað Pegasus hugsar eiginlega, stöðugt áhugaverðari eftir því sem ég kynnist honum betur en af því að hann sýnir lítinn áhuga á að tjá sig um það, held ég frekar uppi samræðum með því að spyrja hann um eitthvað einfalt og þægilegt. T.d. hvaða næringarefni eru í sveppum? og hvernig býr maður eiginlega til kjarnorkusprengjur? Slíkum spurningum svarar hver karlmaður fúslega og ef hann veit ekki svarið þá fer hann bara á gúggl og finnur það.

Þegar maður hefur sofið hjá sama manninum oft, getur maður dregið upp úr honum ýmsar, viðkvæmar upplýsingar sem sýna manni aðeins inn undir skelina. Auðvitað þarf maður að fara varlega. Það er t.d. ekki viðeigandi að spyrja karlmann hvernig sálin í honum sé á litinn fyrr en í fyrsta lagi eftir 60 ára hjónaband en í stöku tilvikum er hægt að fá þó nokkuð persónulegar upplýsingar, strax á fyrstu áratugum sambands. T.d. geta opnustu karlmenn svarað spurningum á borð við: hvert var uppáhaldsævintýrið þitt þegar þú varst lítill? og hvort vildirðu frekar læra ísklifur eða brigde? án þess að smella í baklás.

Ég er alveg einfær um að gúggla upplýsingar um næringarefni í sveppum og þótt það geti svosem verið bráðskemmtilegt umræðuefni, finnst mér sálin í manninum mínum mun áhugaverðari. Það finnst honum hinsvegar ekki og þar sem spurningin „hvað ertu að hugsa?“ hefur ALDREI skilað mér trúverðugu svari, reyni ég frekar að plata hann til að segja mér hvað hann hugsi svona almennt heldur en hvað hann sé að hugsa á því augnabliki. Því miður gengur það ekki mikið betur.

-Hugsar þú aldrei neitt ljótt? spurði ég Pegasus, þegar við vöknuðum í morgun.
-Nei, sagði Pegasus kankvíslega, og var fljótur að því, ég hugsa bara um sólina og blómin.
-Þú segist ekkert hugsa sérlega mikið um fortíðina, framtíðina, trúmál og pólitík, innsta eðli mannskepnunnar eða tilgang lífsins. Hvað ert þú þá eiginlega að hugsa um þegar ég er að hugsa um þessa hluti?
-Bara allskonar,
 sagði hann. T.d. mótorhjól, geimskutlur, börnin mín og þig, vinnuna, líkamsrækt, súkkulaðibitakökur, ljósastaura …

Hmmm. Ég huga lítið um mótorhjól en ég hugsa sennilega álíka mikið og skáldskap og líkamstjáningu eins og hann um allskonar vélar og tækni. Og ég hugsa líka heilmikið um súkkulaðibitakökur og ljósastaura en samt hugsa ég líka ýmislegt ljótt og líka um fullt af himneskum hlutum sem gera mig hamingjusama. Eins og t.d. orðsifjafræði. Ég hef enga trú á því að ég komist yfir að hugsa meira en hann og ég trúi því heldur ekki að hann hugsi jafn mikið um kynlíf og mótorhjól, eins og ég um eilífðarmálin. Áhugavert? Vissulega en veit maður í rauninni nokkurntíma almennilega hvað gengur á í hausnum á annarri manneskju og þarf maður að vita það?

-Finnst þér þú þekkja mig? spurði ég.
-Hrprmpfn? Tja, hmmm? Já. Jajá, mér finnst ég þekkja þær Evur sem þú hefur þegar sýnt mér, en ég veit ekki hvað þær eru margar í allt, sagði hann.
Fleiri Evur? Hmmm. Ég sem er opin ofan í rassgat. Læt allt flakka, eða svo til. Ég er ekki svo margbrotin. Eða hvað?

Við höfum ekki þekkst mjög lengi. Bara fimm og hálfan mánuð. Sem ætti þó að vera andskotans nóg til að átta sig svona nokkurn veginn á því hvar maður hefur hinn aðilann. Af því ef manni duga ekki 5-6 mánuðir til að komast að niðustöðu um það hvort maður þorir að treysta einhverjum fyrir sjálfum sér, þá mun maður ennþá vera í sama vafanum eftir 5-6 ár.

Þekki ég hann? Hummjammtja; staðreyndin er sú að ég botna ekki almennilega í honum. Hef ekki hugmynd um hvað hann hugsar eða hvernig hann hugsar. En ég þekki hann samt nógu vel til að staðhæfa, svona vitrænt séð, að hann er mjög ólíklegur til að koma óheiðarlega fram við mig eða særa mig viljandi og að hann er mjög líklegur til að halda áfram að vera góður við mig. Ég viðurkenni að ég á ennþá dálítið erfitt með að trúa því með hjartanu, af því að ég skil hann ekki almennilega, en ég veit það með hausnum. Alveg eins og ég veit að margra tonna flykki geta flogið um loftin og gera það og þótt sú vitneskja stangist á við minn takmarkaða skilning á eðlisfræði, þá veit ég það samt nógu vel til að geta ferðast með flugvélum án þess að verða skelfingu lostin við hverja dýfu. Ég treysti tækinu þótt ég skilji ekki hvernig að virkar. Þessvegna er ég líka smámsaman að finna til meira öryggis í þessu sambandi. Ég veit að ég þarf ekki að vera á nálum þótt ég viti ekki hvað hann er að hugsa (eins áhugavert og það nú er) og að það er ekki bein ávísun á djöful og dauða þótt við lendum í tímabundinni ókyrrð.

Og þetta er nóg. Það er lífstíðarverkefni að kynnast annarri manneskju til fulls. Það er hinsvegar nokkuð fljótlegt að komast að því hvort viðkomandi hæfur til langflugs eður ei.

One thought on “Hvað ertu að hugsa?

 1. ———————————————————–

  Hvers vegna þarftu að vita hvað hann er að hugsa ?

  Posted by: Guðjón Viðar | 17.03.2008 | 15:07:32

  —   —    —

  Hvers vegna þarftu að spyrja Guðjón? Lastu ekki færsluna?

  Eins og kemur skýrt fram í færslunni, þá finnst mér það hvað kærastinn minn hugsar áhugavert. Það er út af fyrir sig næg ástæða til að spyrja.

  Eins og kemur einnig fram í færslunni en ekki alveg jafn skýrt, þá er mjög margt sem vekur forvitni mína, ekki síst það sem snertir eðli og hugarheim manneskjunnar. Mér finnst semsagt yfirhöfuð forvitnilegt hvað fólk hugsar.

  Eins og einnig má ráða færslunni, ef lesandinn er sæmilega glöggur, þá er það hluti af því að kynnast að setja sig inn í hugarheim hins aðilans. Eins og þeir sem hafa fylgst með mér lengi munu réttilega álykta, þá finnst mér það kostur að elskendur þekkist dálítið.

  Eins og skarpari lesendur en Guðjón munu átta sig á, er niðurstaðan sú að ég ÞARF ekki endilega að vita hvað hann hugsar. Þótt mér þætti það óneitanlega skemmtilegt.

  Posted by: Eva | 17.03.2008 | 20:01:15

  —   —    —

  Ég var að gúgla heima hjá mér til að komast að því hvaða næringarefni væru í sveppum og rambaði þá á þessa færslu þína!! Á ég að skammast mín fyrir að vera friðlaus á síðkvöldi yfir því að vita þetta ekki??

  Posted by: Þórunn Gréta | 3.11.2008 | 22:43:52

Lokað er á athugasemdir.