Bætum Ramses við ímyndina

Jafnvel dómstóll Moggabloggsins virðist hafa skilning á aðgerðinni í nótt.Mál Keníamannsins er auðvitað með ólíkindum. Ég er ekki hissa á því að hafi þurft að pilla honum úr landi með korters fyrirvara, annars hefði almenningur sagt obbobobbobobb. Ef fréttirnar hefðu borist aðeins hálfum sólarhring fyrr hefði gefist tími til að mótmæla þessu og ekki vildu nú íslensk yfirvöld láta trufla sig í því að fullnægja því réttlæti sem tíðkast í landi frumkvæðis, frelsis og hvað það nú var, hreinnar náttúru kannski?

Ég veit að fullt af fólki brást við strax eftir sjónvarpsfréttir í gær og sendi Ingibjörgu Sólrúnu tölvupóst en hverjar eru líkurnar á því að hún hafi lesið þann póst fyrr en vélin var farin í loftið í morgun?

Í mínum kunningjahópi kom fram ein hugmynd um aðgerð sem hugsanlegt væri að næði eyrum ráðamanna ÁÐUR en Paul Ramses kveddi íslenska grund. Hún var sú að hlaupa út á flugbrautina og reyna að tefja vélina í því að fara í loftið. Þetta var eina hugmyndin sem ég hef ennþá séð sem átti nokkurn möguleika á að vekja athygli í tæka tíð. Ég er innilega stolt af þeim sem þó reyndu.

Já en hann var nú bara að vinna vinnuna sína

Og ég kalla til ábyrgðar: íslensk stjórnvöld sem tóku ákvörðun um að hjálpa Paul Ramses ekki, bara af því að þau gátu komist hjá því og Útlendingastofnun sem mánuðum saman dró lappirnar og vanrækti þá skyldu að setja mál hans í flýtimeðferð. Aukinheldur: lögreglumennina sem fóru inn á heimili hans og handtóku hann saklausan, lögregluþjónana sem leiddu hann út úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu og inn í bíl sem flutti hann til Keflavíkur í nótt sem og áhöfn flugvélarinnar sem fór með hann til Ítalíu.

Það er með öllu óþolandi að fólk sem tekur þátt í svínaríi skuli alltaf geta gengið að því vísu að almenningur sætti sig við afsökunina „ég er bara að vinna vinnuna mína“. Þeir sem skrúfuðu frá gasinu í fangabúðum Nasista voru líka bara að vinna vinnuna sína. Allt þetta fólk hefur væntanlega vitað að för Paul Ramses til Ítalíu er að öllum líkindum aðeins millilending á leið hans til ofsókna, pyndinga og jafnvel dauða. Fólk hættir ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum þótt það sé í vinnunni.

Paul Ramses má ekki gleymast

Vakin um miðja nótt. Treð mér í gallann utan yfir náttfötin og hendist út. Andskotans enginn tími til að undirbúa aðgerð og við vitum svosem fyrirfram að vélin verður ekki stöðvuð. En maður getur ekki bara setið með hendur í skauti á meðan íslensk stjórnvöld henda pólitískum flóttamanni úr landi, án þess að Útlendingastofnun hafi einu sinni tekið málið fyrir. Óundirbúin aðgerð er skárri en engin. Tveir handteknir en þeir reyndu þó. Halda áfram að lesa

Eitt daðr

Þakka hlýjar kveðjur og fullt af heimsóknum og gjöfum.

Ég er á leiðinni út að borða eitthvað hrikalega gott, ekki á gráa kettinum, heldur með gráa kettinum.
Kannski fáum við okkur heitan graut.

Mælt af

Árið er hálfnað. Samkvæmt tölfræðinni er ævi mín líka hálfnuð.Dagana eftir fertugsafmælið mitt var ég oft spurð að því hvort ég fyndi fyrir miðaldurskrísu. Ég varð 41 árs fyrir tæpum 2 tímum og nei, ég bara finn ekkert fyrir þessari krísu enn. Að vísu hef ég svosem ekkert afrekað ennþá en ég var á alveg jafn miklum bömmer yfir því þegar ég var tvítug. Ég sé líka alveg hrukkunum fjölga með hverju ári en mér líður ekkert verr yfir þeim en mér leið yfir ímynduðum útlitsgöllum mínum 15 ára eða 23ja ára. Ætli það sé óeðlilegt að hafa ekki verulegar áhyggjur af því að maður sé að eldast?

Ég gekk í gegnum aldurskrísu um 17 ára aldur. Kveið því að verða fullorðin af því að ég hélt að því fylgdi svo mikil ábyrgð og að það hlyti að vera þrúgandi. Það reyndist mér auðveldara að vera fullorðin en barn. Mig grunar að það verði mér líka auðveldara að vera miðaldra en ung.

Ég hef aldrei verið mikið afmælisbarn en mér finnst samt alltaf stöðugt meira tilefni til að fagna því að vera á lífi. Hef aldrei skilið almennilega tilganginn með að hafa sérstakan dag á árinu til þess en kemst samt alltaf við af væmni yfir því að fá afmæliskveðjur. Var einmitt í þessum orðum skrifuðum að fá eina sem mér þykir sérdeilis vænt um.

Ég held annars að ég sé að endurheimta kynhvötina. Spurning hvort ég ætti ekki að halda upp á það.