Já en hann var nú bara að vinna vinnuna sína

Og ég kalla til ábyrgðar: íslensk stjórnvöld sem tóku ákvörðun um að hjálpa Paul Ramses ekki, bara af því að þau gátu komist hjá því og Útlendingastofnun sem mánuðum saman dró lappirnar og vanrækti þá skyldu að setja mál hans í flýtimeðferð. Aukinheldur: lögreglumennina sem fóru inn á heimili hans og handtóku hann saklausan, lögregluþjónana sem leiddu hann út úr lögreglustöðinni við Hverfisgötu og inn í bíl sem flutti hann til Keflavíkur í nótt sem og áhöfn flugvélarinnar sem fór með hann til Ítalíu.

Það er með öllu óþolandi að fólk sem tekur þátt í svínaríi skuli alltaf geta gengið að því vísu að almenningur sætti sig við afsökunina „ég er bara að vinna vinnuna mína“. Þeir sem skrúfuðu frá gasinu í fangabúðum Nasista voru líka bara að vinna vinnuna sína. Allt þetta fólk hefur væntanlega vitað að för Paul Ramses til Ítalíu er að öllum líkindum aðeins millilending á leið hans til ofsókna, pyndinga og jafnvel dauða. Fólk hættir ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum þótt það sé í vinnunni.