Skemmdarverk?

Sé það rétt tilgáta að slánni hafi verið sparkað upp af miklu afli (þá væntanlega af fullorðnum) er þetta hið óhugnanlegasta mál.

Það er ekki langt síðan framið var skemmdarverk á leiktæki í Fjölskyldugarðinum í Reykjavík og maður hlýtur að fara að velta því fyrir sér hvort það sé einhverskonar tíska að stofna til slysa á þennan hátt. Þegar fréttist af slysinu í adrenalíngarðinum, hvarflaði að mér að einhver tengsl væru á milli þess og skemmdarverksins í Fjölskyldugarðinum  en ekkert hefur enn komið fram sem bendir til þess.

Merkilegt þykir mér að sjá að þegar skemmdarverk sem verður að flokkast sem raunverulegt ódæði er framið, virðist það ekki vekja mikla athygli. Fréttist hinsvegar að því að einhver hafi krotað pólitísk skilaboð á húsvegg, ég tala nú ekki um ef fánalög eru brotin eða vinna hjá skítafyrirtæki stöðvuð í mótmælaskyni, þá fer bloggheimur gjörsamlega á límingunum yfir því að annað eins glæpahyski og skemmdarvargar fyrirfinnist.

Kannski er bloggplebbinn ekkert svo geðbólginn yfir skemmdarverkum sem slíkum, heldur yfir því að þægilegum ranghugmyndum hans um veruleikann sé ögrað.

mbl.is Í lífshættu eftir Tívolí-slys

Kræst

Geðveikt fólk getur gert mig geðveika. Annar hver lúni í Reykjavík virðist hafa tekið ástfóstri við mig. Mætti halda að það geysaði einhverskonar tunglsýkifarsótt og það er ekki einu sinni fullt tungl.

Ég held það sé kominn tími á Angurgapa.

Vííí!

Ég er rík! Var einmitt að vinna í Vodafone happdrættinu. Sem ég hef reyndar aldrei spilað í.

Hver ætli útvegi annars allar þessar milljónir sem ég hef unnið í happdrættum undanfarin ár? Djöfull væri ég orðin rík ef ég hefði einhverntíma sent inn þessar persónuupplýsingar sem þarf til að fá þær greiddar. Kannski þeir sem fjármagni dæmið (fyrst það eru ekki þáttakendur) séu þeir sömu og borga Saving Iceland laun fyrir mótmælaaðgerðir? Þar er nú önnur auðlind sem ég hef greiðan aðgang að en hef samt aldrei nýtt.

Ég hugsa að ég loki bara sjoppunni og gerist atvinnuvinningshafi. Örugglega meira upp úr því að hafa en að vera atvinnumótmælandi.

It’s a jungle out there

Og hvað merkir það þá að vera góð manneskja? spyr ég en hann getur auðvitað ekki svarað því. Líklega leggur hann gæði og þægindi að jöfnu. Sjálfsagt finnst honum góð manneskja vera sambærileg við góðan bíl, þægileg til reiðar, lætur vel að stjórn og tekur á sig skellinn ef kemur til áreksturs. Heldur útliti sínu nokkuð vel með góðri umönnun og gerir ekki kröfur umfram eldsneyti og reglulega smurningu. Halda áfram að lesa

Glæpur án fórnarlambs

Af hverju er bannað að vera öðrum undirgefinn? Auðvitað á að vera bannað að kúga aðra en ef ég ákveð sjálf að hlýða manninum mínum, og hann er til í að taka að sér að bera ábyrgð á mér, sjá fyrir mér og segja mér fyrir verkum hvar er þá fórnarlambið í þeim glæp? Ef konan hefur ekki valið sér þetta hlutskipti sjálf, væri þá ekki nær að refsa þessum karlmönnum sem undiroka hana?

Börn eru oftast foreldrum sínum undirgefin. Á þá ekki að synja þeim um ríkisborgararétt líka?

Glætan spætan að þetta snúist um lög eða siðferði.

mbl.is Undirgefni samræmist ekki frönskum gildum

Flóttamaðurinn ljúgandi

Þessvegna vil ég að fólk sem leitar til okkar og segist vera í lífshættu, sé látið njóta vafans á meðan verið er að skoða mál þess.

Trúir því einhver í alvöru að þetta fólk búi við öryggi í dag?

Ja, fyrst frændi Pauls Ramses segir það… Og Ómar Valdimarsson, hann hefur víst komið til útlanda og allt.

Ég hef aldrei verið ofsótt. Aldrei meiðst að ráði. Ég hef engar forsendur til að setja mig í spor þeirra sem hafa upplifað stríð. En verði ég einhverntíma fyrir áföllum, þá vona ég að einhversstaðar í heiminum verði fólk sem er allavega tilbúið til að hlusta.

mbl.is Ramses gæti stefnt ríkinu