Einn mánuður

Eftirlitssamfélagið hefur sína kosti. Fyrir bara 15 árum fór miklu meiri tími í allar reddingar. Nú er hægt að klára flest mál í gegnum netið eða síma og yfirleitt þarf maður ekki einu sinni að vera með skilríki því það er hægt að skoða mynd af manni í ‘kerfinu’ ef mikið liggur við. Margir geta skilað skattaskýrslu bara með því að ýta á enter.

Ég er með flugmiða fyrir framan mig og búin að ganga frá vegabréfi líka. Tók enga stund og ekkert vesen. Einn mánuður er fáránlega fljótur að líða og ég ætti að vera rosalega stessuð. Samt er hugmyndin um að ég sé að fara út einhvernveginn svo fjarstæðukennd að ég er nenni ekki einu sinni að ganga frá pappírum fyrir bókarann minn.

Annars kemur það mér á óvart hve margir virðast ekki hafa neinn skilning á því hversvegna ég vil gera þetta. Ég er alltaf að fá spurningar á borð við ‘hverju heldurðu að þú getir breytt?’ Málið er að ef tilgangurinn væri sá að geta sagt: jess, við unnum, við björguðum heiminum, þá færi enginn í hjálparstarf og sennilega enginn í lækningar eða hjúkrunarstörf heldur.

Varnarlaust fólk þarfnast stuðnings og sá stuðningur skiptir máli. Ég gleymi aldrei manninum sem hjálpaði mér heim þegar ég datt af hjólinu mínu 9 eða 10 ára. Hann breytti kannski ekki heiminum en hann breytti einum degi í lífi eins barns.

Stundum hvarflar það að mér að krafan um markmið og árangur sé hættulegri en við höldum.

Svei attan

Predikarinn Jón Valur Jensson hefur löngum staðið í heilögu stríði gegn mannréttindum samkynhneigðra. Nú bætir hann um betur og ræðst gegn kynskiptingum. Rök hans eru svo aum og óskynsamleg að ef hann væri tilbúinn til að leggja fordóma sína til hliðar eitt andartak, ætti hvaða kjáni sem er að geta leiðrétt mannfjandsamleg viðhorf hans.

En Jón Valur býður ekki upp á umræðu sem afhjúpar fordóma hans og oflátungshátt gagnvart fólki sem finnst það vera fast í röngum líkama. Hann bara lokar á frekari umræður þegar hann er kominn út í horn.  Ekki þykir mér sæmd að því að ráðast á minnihlutahóp en loka svo á gangrýni. Ekki svo að skilja að ég hafi áhyggjur af þessu, því Jón Valur kemur upp um fordóma sína sjálfur. Mér finnst þetta bara svo hallærislegt.

Í þágu þrælahalds

Það sem Landsvirkjun hefur á samviskunni er ekki bara það að rústa náttúru landsins og leggja saklaust fólk í einelti til þess að ná jörðunum þeirra af þeim. Landsvirkjun er líka að greiða veg þrælahaldara, fyritækis sem gengur svo langt í ómannúðlegri meðferð á þrælum sínum að í sumum tilvikum eru þeir látnir skíta á sig í bókstaflegri merkingu. http://www.nlcnet.org/article.php?id=447

mbl.is Mótmæla við Landsvirkjun

 

Ertu á túr? Sannaðu það!

Ég var 12 ára og á túr. Langaði ekki sérstaklega að tilkynna sundkennarnum það en Stína hjálpaði mér. Hún hélt reyndar að hún væri að gera at í mér. Sagði að ég yrði að fá einhverja af eldri stelpunum til að staðfesta að ég væri á blæðingum, með því að sýna bindi.

Mér var létt. Ég vissi auðvitað að þetta gat ekki staðist en datt í hug að kannski hefði það verði svoleiðis þegar amma var ung. Það var einhvernveginn minna mál að segja kennaranum að ég væri „forfölluð“ þegar ég bar það saman við hugsanlega niðurlægingu af því að þurfa að sýna bindi.

Mér datt ekki í hug þá að einhversstaðar í heiminum þyrftu fullorðnar konur að gyrða niður um sig til að sanna ástand sitt fyrir vinnuveitendum sínum. Því síður hefði mér dottið í hug að fyrirtæki sem hegaði sér á þann hátt, yrði boðið velkomið til landsins, það lofsungið fyrir að bjarga efnahag landsins og mulið undir það með nánast ókeypis rafmagni.