Orðsending til appelsínugulu slæðunnar

Að rita gullaldarmál er góð skemmtun. Slíkt er þó jafnan hjákátlegt ef sá sem á pennanum heldur kann ekki almennileg skil á nútíma íslensku.

Sé skáldið nýbúi sem aðeins hefur dvalið á landinu skamma hríð, væri ráð að bera texta undir meðalgreint skólabarn áður en hann er sendur viðtakanda. Einkum á þetta við þegar viðtakandi er lítt næmur fyrir nafnlausum skilaboðum en fyllist hinsvegar svæsinni viðurstyggð þegar hann sér illa skrifaðan texta.

(Tilefnið var hótun sem rituð var á appelsínugula slæðu og bundin á handfangið á hurðinni að Nornabúðinni)

Að gefnu tilefni

mbl.is Lögregla ræddi við mótmælendur

Að gefnu tilefni skal tekið fram að sögur af meintri handtöku sonar míns eru stórlega ýktar. Hann var reyndar ekki einu sinni með í þessari aðgerð í þinghúsinu. Hann er hinsvegar staddur uppi á lögreglustöð núna í þeim tilgangi að fá almennilegan rökstuðning fyrir handtöku mótmælenda í dag.

 

Lítið notuð fallöxi óskast

Mér segir svo hugur um að á næstu mánuðum verði framin mikil „hagræðing“ í heilbrigðis- og menntakerfinu.

Sjálf vildi ég frekar sjá hagræðingu á Alþingi og í bönkunum. Tilteknum bankastjóra sem nú makkar með Gaddafi, mætti gjarnan hagræða út úr íslensku valdastéttinni hið snarasta.

Fallöxin á samt bara að vera til skrauts en mér þætti viðeigandi að hún prýddi hinn nýja fána lýðveldisins. Sá gamli er líka með úreltu aftökutæki sem aldrei hefur verið notað á Íslandi svo fánarnir myndu kallast skemmtilega á og fallöxin er þó altént ekki trúartákn

mbl.is Eignast líbýskur banki Kaupþing í Lúxemborg?

Ólíkt hafast þeir að

Útlendingurinn sér fram á samdrátt og bregst við með því að hegða sér skynsamlega, sýna meiri hófsemi.

Íslendingurinn aftur á móti neitar að horfast í augu við staðreyndir. Hann telur sér trú um að það að hugsa jákvætt jafngildi því að stjórnast af draumórum og eyðir sem aldrei fyrr.

Fyrir nokkrum dögum flúði starfsfólk BT í skjól af ótta við að troðast undir.

Ég skammast mín ekki fyrir að vera Íslendingur. Það er ekki mér að kenna, ég get ekki breytt því og þar af leiðandi er tilgangslaust að skammast sín. Ég spái því að Þorrabyltingin muni ekki snúast um kröfuna um nýja stjórnhætti, heldur muni múginn rísa upp og krefjast þess að ríkið taki fleiri lán. Eða selji auðlindir okkar úr landi.

Frjálsa fjölmiðla – my ass!

Halló Davíð!

Fjölmiðlamenn hafa nú frekar kvartað um að það sé erfitt að ná tali af þér og þá sérstaklega að fá þig til að koma fram með öðrum sem hafa ólík sjónarmið.

Ég hef sjálf átt greiðan aðgang að þessum ófrjálsu fjölmiðlum, þótt ég hafi aldrei haft skilaboð um önnur eins stórtíðindi og þau að efnahagskerfið sé að hrynja. Hvaða fjölmiðla reyndir þú eiginlega að fá til að veita þér viðtal?

mbl.is Davíð: „Þá mun ég snúa aftur“