Að halda kúlinu

Yfirleitt eyði ég ekki miklu púðri í að daðra. En það er ekki af því ég hafi ekki gaman af því eða sé ófær um það. Það er bara með daður eins og aðra leiki, maður vill leika við jafningja. En hitti maður á jafningja er það gaman. List. Lyst. Skemmtilegast þegar maður fær næstum því, en ekki alveg þó, staðfestingu á því að dýrið hafi áttað sig en viti ekki alveg hvar það hefur mann. Halda áfram að lesa

Höldum bara stjórnlagaþing hvort sem þeim líkar betur eða verr

Ef þeir hafa val um leyfa kjósendum að raða á lista en nýta sér ekki það val (hversvegna ættu þeir að gera það?) þá er þetta nákvæmlega engin breyting. Jafnvel þótt ég fái að hafa áhrif á það hvaða sæti tiltekinn maður skipar á lista, er breytingin líka sáralítil.

Lausnin er einföld. Við höldum stjórnlagaþing, sem samþykkir nýja stjórnarskrá.  Verði almenn stemning fyrir því að afnema flokkakerfið eða gera á því gagngerar breytingar, þá setjum við það í stjórnarskrána. Fyrsta ákvæði nýrrar stjórnarskrár verður á þá leið að múgurinn megi beita hverjum þeim ráðum sem tiltæk eru til að framfylgja ákvæðum stjórnarskrárinnar. Svo gerum við það, hvort sem valdhöfum hugnast það eða ekki.

mbl.is Persónukjör í kosningunum?

 

Gamlir aðgerðasinnar eru ekki til

Þegar aðgerðasinnar hafa sig í frammi eru þeir alltaf ungmenni, jafnvel þegar yngsti beini þáttakandinn er tvítugur, sá elsti 47 ára, meðalaldur 32ja ára og langflestir þeirra sem komu að undirbúningi og studdu aðgerðina eru komnir yfir 25 ára aldur. Það eru líka ‘ungir aðgerðasinnar’ sem eru að verki í aðgerðum þar sem MFÍK konurnar (flestar komnar yfir fimmtugt) og hernaðarandstæðingar á aldrinum 40-70 ára eru í meirihluta. Ekki svo að skilja að mér þyki það neitt sérlega sorglegt, ég er alveg til í að vera flokkuð sem ungmenni, enda er ungt fólk ekkert ómerkilegra en aðrir.

Ég hef grun um að ég hafi verið fyrst til að nota hið ágæta orð aðgerðasinni, sem er nú orðið fast í málinu. Ég er ánægð með það.

Þetta eru fokkans fasistar

-Löggan elti okkur. Hægði á bílnum þegar þeir nálguðust. Hringsólaði í kringum okkur. Tók smá rúnt en kom svo aftur, sami bíllinn. Rétt á eftir kom annar á móti honum, þeir stoppuðu, töluðu saman og einn benti í átt til okkar. Annar bíllinn stoppaði svo við hús vinar okkar eins og til að láta okkur vita að þeir vissu hvert við ætluðum.
Halda áfram að lesa

Ég er komin með ofnæmi fyrir fólki sem réttlætir lögregluofbeldi

Hvað sem segja má um einstaka lögreglumann, þá er eðli þessarar stofnunar ógeðfellt. Megintilgangurinn með því að gefa lögreglunni leyfi til valdbeitingar er sá að verja vald örfárra manna, sama hvernig þeir hegða sér.

Og þegar við hugsum um fasisma dettur okkur fyrst í hug Ítalía Mussolinis. Það mætti halda að fólk átti sig ekki á því að þótt við getum ennþá talið Ísland tiltölulega lýðræðislegt, eru ákveðin fasísk einkenni að ryðja sér til rúms og það er algerlega nauðsylegt að spyrna á móti.

Í mínum huga er þetta ekki bara spurning um það hvort menn sýna yfirvegun í erfiðum aðstæðum, heldur hvort þeir velja sér það hlutskipti að þjóna yfirvaldinu og fylgja skipunum gagnrýnislaust. Með því að taka sér stöðu gegn mótmælendum er löggan að styðja valdníðsluna, spillinguna, efnahagsstefnu sem ógnar sjálfstæði þjóðarinnar og kerfi sem býður ekki upp á neinar breytingar.

Ég hitti einn löggumann um daginn sem hefur bara neitað að vera viðstaddur mótmæli. Hann kemst upp með það, þótt hann sé ekki einu sinni anarkisti.

Þeir lögregluþjónar sem vilja ekki taka þátt í því að verja valdníðinga gætu t.d. tekið sig saman um að neita að vinna yfirvinnu. Þeir gætu farið í setuverkfall, þ.e. mætt en sleppt því að standa gegn okkur, allavega sleppt piparúðanum og kylfunum.