Útgáfuteiti

Ég er í skýjunum.

Útgáfuteitið fór fram úr mínum björtustu vonum. Ég hafði ekki reiknað með nema í hæsta lagi 30 manns en um 130 manns mættu, m.a.s. fullt af fólki sem ég hafði ekki séð í mörg ár og átti alls ekki von á að kæmi. Ég vissi að Jón Hallur hefði samið flott lög við kvæðin mín en ég vissi ekki að hann kæmi með heila hljómsveit. Ég hafði ekki heyrt Sólveigu Öldu syngja fyrr og hún er með virkilega flotta rödd sem passar svo vel við þessi lög. Ég fékk gæsahúð þegar ég heyrði hana syngja hefndarseiðinn. Mér finnst ekkert annað koma til greina en að gefa þessi lög út og vona bara að Teinar komist í það sem fyrst. Halda áfram að lesa

Afdrif Nours

Ég hitti nokkra flóttamenn í gær, ekki reyndar Nour en ég frétti af honum og djöfuls fokking fokk hvað Íslendingar eru aumkunarverðir.

Nour fékk reyndar að koma aftur til landins en ekki sem flóttamaður. Þessi strákur er klár og duglegur. Hann var í vinnu áður en hundar valdstjórnarinnar handjárnuðu hann og sendu peninga- og símalausan úr landi að undirlagi svokallaðs mannréttindaráðherra (sem er eitthvert alvarlegasta dæmi um karl með píku sem fyrirfinnst á Íslandi) með rökunum, ‘ég er nú bara að vinna vinnuna mína.’

Nour fékk að snúa heim eftir margra vikna baráttu Helenar Harsitu og fleira góðs fólks, en nú fær hann ekkert atvinnuleyfi og á engan rétt á neinum bótum heldur. Hann er algjölega háður því að vinir hans sjái honum farborða og hefur engan raunhæfan möguleika á að nýta hæfileika sína. Hann er að því leyti verr settur en fangi að hann á ekki einu sinni rétt á lágmarks framfærslu.

Andúð mín á Útlendingastofun og Mannréttindaráðuneytinu er að komast á alvarlegt stig.
Ég spái því að túrtappasala aukist á næstu árum.

Hættur að ganga

Sonur minn Byltingin: Ég er hættur að ganga.
Ég: Hættur að ganga? Nú, ertu farinn að nota strætó svona mikið?
Byltingin: Nei, síður en svo en ég er hættur að ganga, nú hleyp ég.

Köttur með smekk

Mér þótti reyndar afar ótrúlegt að Anja væri raunverulega svöng en ekki vil ég svelta dýrin svo til öryggis setti ég dálítið þurrfóður í kattadallinn. Þetta var hræódýrt fóður sem þeim virðist ekki þykja neitt sérlega spennandi og ég nota aðallega í þessum tilgangi, enda reyndist hún ekki hungraðri en svo að hún át aðeins nokkra bita.

Í morgun þegar ég kom fram voru þær enn ekki búnar með fóðrið en ég setti venjlegan skammt af annarri tegund og mun dýrari saman við. Þær komu strax og gúlluðu í sig. Ég fór fram til að setja í þvottavél á meðan þær voru að éta og tók þá eftir því að Norna tíndi bitana af ódýra fóðrinu upp úr dallinum og lagði þá snyrtilega á gólfið við hliðina á honum.

Svo nú hef ég fengið skýringu á því hversvegna þær eiga það til að sóða þurrfóðrinu út á gólf þótt það komi aldrei fyrir þegar þær fá dósamat eða matarafganga. Norna er semsagt bara að henda rusli.

Útgáfudagur nálgast

Jæja, þá fer nú loksins að hylla undir að þessi bók okkar Ingólfs komi út. Upp úr 20. mars segja þeir hjá Skruddu. Mér finnst þetta hafa tekið óratíma en það var nú ekki fyrr en síðustu vikuna í janúar sem þeir fengu handritið í hendurnar og flestir útgefendur taka sér meira en hálfan dag til umhugsunar, svo ég get víst vel við unað.

Næsta verkefni er að undirbúa útgáfuteiti. Ég er ekki mikið samkvæmisljón, held ekki einu sinni upp á afmælið mitt nema á 12-15 ára fresti, en ég ætla allavega að fagna í þetta sinn.

Smáábending

Ekkert samfélag hefur nokkru sinni þrifist án lista, fræða og afþreyingar. Hinsvegar hafa fjölmörg samfélög þrifist án stóriðju og offramleiðslu. Sennilega er eitt gott hláturskast líklegra til að auka lífsgæði fólks en heill farmur af hamingju í dós.

Hér eru tilmæli til þeirra sem vilja leggja niður opinber fjárframlög til menningarinnar á þeirri forsendu að það sé ekki hægt að éta hana: Hoppaðu upp í rassgatið á þér. Þegar þú ert búinn að éta eins og eitt klíó af áli.

Aðalmeðferð í máli Rachel Corrie

Í dag hefst í Haifa, aðalmeðferð í máli foreldra Rachel Corrie gegn ísraelska hernum. Þótt fjölskylda stúlkunnar eigi alla mína samúð og ég voni virkilega að þau fái einhvern vott af réttlæti úr þessum réttarhöldum sem þau eru búin að berjast fyrir í 7 ár, finnst mér samt frekar ógeðfellt að dauði þessa eina alþjóðaliða skuli hafa vakið svo miklu meiri athygli en málstaðurinn sem hún dó fyrir.

Getur einhvern útvegað mér kort af Nablus og nágrenni með latneskri stafagerð? Endilega hafið samband ef þið lumið á einu slíku. Netfangið er eva@norn.is