Allt er þetta mál hið spaugilegasta. Maður sem er þekktur fyrir það helst að útbreiða útlitsdýrkun og yfirborðsmennsku meðal ungdómsins er fenginn til að hanna útlit bókar sem enginn les á pappír nema þeir sem komnir eru yfir sextugt. Þegar grunsemdir um að útlitið sé innrætinu skárra, fá byr undir báða vængi, er eigendum bókarinnar boðið að hylja yfirborðið. Og almenningi náttúrulega enganveginn treystandi til þess að verða sér úti um límmiða eða krota yfir sín eigin skilaboð. Staðlaðar lausnir, það er það sem gildir í dag.
Myndin er stolin af visi.is
af fullkomnu samviskuleysi og vanvirðingu fyrir höfundarréttarlögum
Dálítið táknrænt fyrir íslensku leiðina að redda klúðri með því að líma yfir það og kannski ennþá táknrænna að samkvæmt þessari mynd er helst að sjá sem límmiðarnir nái ekki yfir skankana á módelinu, ekki nema þá að hausinn standi upp fyrir. Hann er gangandi límmiði blessaður maðurinn.
Auðvitað hefði límmiðinn átt að vera sköndullaga. Það hefði þó allavega einhverjum þótt það fyndið.

Hér á ég heima. Við búum á 8. hæð og þetta er útsýnið út um stofugluggann. Beint á móti er skipasmíðastöð og ég sé nú ekki alveg fegurðina í henni en Eynari finnst hún æðisleg. Þetta er fullkomið, við sitjum bara þannig að hann sjái skipasmíðastöðina en ég þennan huggulega hluta sem sést á myndinni. Hún er tekin síðasta sumar og nú eru trén nakin. Engu að síður er dásamlegt að horfa yfir ána á meðan maður drekkur morgunkaffið. Eynar er búinn að koma mér upp á almennilegt cappuccino og ég hef ekki drukkið skyndikaffi síðan í nóvember.
Ég átti von á að veðurfarið væri hundleiðinlegt á þessum árstíma en þessar rúmu tvær vikur sem ég hef verið hér hefur alltaf utan einu sinni verið blankalogn einhvern hluta dagsins og yfirleitt hlýtt. Við búum við göngugötu sem liggur meðfram ánni og verðum aldrei vör við bílaumferð. (Sjá mynd hér til hliðar.) Sjö mínútna gangur í lestarstöð og bæjarkjarna með helstu verslunum og þjónustu. Sjö mínútna ferð með lestinni í miðbæinn.
Ef marka má bæjarkjarnann næst hverfinu okkar eru borgarbúar að jafnaði veikir, í fjárhagsvandræðum og gífurlega uppteknir af hárinu á sér. Allavega er allt fullt af apótekum, veðlánurum, nytjamörkuðum og hárgreiðslustofum. Stutt í söfn, ég er þegar búin að skoða tvö söfn og svo er pöbb sem var einu sinni kirkja í göngufæri og einnig skrúðgarður. Við fórum þangað daginn eftir að ég kom út og það er allt fullt af útsprungnum blómum.

