Fjall Satans

Það hafði svosem ekki annað staðið til en að fara í smá fjallgöngu og nú vorum við búin að borða morgunmat og veðurútlit hið besta. Einar bað mig að ganga með sér á þetta fjall. Það mun heita Fjall Satans.

Einar lýsti þessu sem ósköp þægilegri göngu. Fyrst væri það bara klukkutíma ganga á sléttlendi og svo hækkun eins og upp að Steini. Það hljómaði nú alveg viðráðanlegt. Torfi ætlaði ekki koma með, vildi frekar rölta á sléttu þrátt fyrir hástemmdar lýsingar Einars á óviðjafnanlegri náttúrfegurð. Auðvitað hefði það átt að hringja bjöllu hjá mér en nei, ég ályktaði bara að hann væri í slæmu formi eða nennti ekki.

„En þú veist að ég geng ekki hratt upp í móti,“ sagði ég og Einar sagðist hafa nógan tíma. Reiknaði með að ferðin tæki svona fjórar klst í allt.
„Þá verðum við sex tíma fyrst þú segir fjóra“, sagði ég en hann taldi mig ægilega svartsýna.

 

Yfir ána

Meint sléttlendi reyndist vera fleiri ferkílómetrar af grjóthrúgum. Líklega uppþornað jökulfljót. Ekki beinlínis erfitt yfirferðar en heldur ekki slétt undir fót og ég var eiginlega strax orðin hálffegin því að Einar skyldi hafa pínt mig í fjallgönguskó.

„Ég veit ekki alveg hvað við þurfum að ganga langt inneftir áður en við getum farið að hækka okkur því við þurfum að finna góðan stað til að vaða yfir ána“, sagði Einar. Ég hef áður vaðið yfir læki og hafði ekkert hugsað sérstaklega út í það þegar hann tók frauðplastskóna með en nú var að renna upp fyrir mér að Einar ætlaði mér að vaða yfir jökulá.

Nújæja. Það gerist ekkert verra en það að mér verður svo kalt að ég get ekki stigðið í lappirnar og þá verður hann að bera mig til baka og þar með er þessari tilraun lokið hugsaði ég og lét sem ég hefði allt eins reiknað með því að vaða Élivoga alla leið til Niflheims.

En mér til undrunar var jökuláin svo bara ekkert kaldari en ferskvatnslækur.

 

Komin yfir ána og Einar búinn að rífa sig úr fötunum.

 

Það var ekki eins hlýtt og maður gæti haldið. Kannski 6°C.

 

Jæja við vorum komin yfir og það hafði vitanlega tekið lengri tíma en Einar reiknaði með en veðrið var gott og við fórum ekki hratt (af því það er einfaldlega ekki hægt að ganga hratt á grjóthrúgum) svo mér fannst þetta bara ganga aldeilis vel. Svo var líka svo margt ljómandi fallegt að sjá.

Daggperlur hvað? Eigum við eitthvað að ræða það?

 

Þetta er nú dálítið í stíl við Mugison – finnum læk, litla laut …

 

Núna þurftum við bara að stikla yfir svona 10 læki í viðbót og okkur tókst að komast hjá því að bleyta okkur í fæturna. Jei! Héðan af yrði leiðin upp í móti en þetta hafði gengið vel og mér fannst ég alveg tilbúin að leggja smá á mig svo ég lagði af stað upp fjallið.

En nei, við vorum víst ekkert að fara beint upp heldur einhverja allt aðra leið, inn dalinn og einhverjar hlíðar sem ég man ekkert hvað heita. „Það er auðvitað frekar hættulegt að fara hér upp svo hann ætlar með mig einhverja öruggari leið“ hugsaði ég og fylgdi honum fúslega. Það voru mikil mistök.

Þetta reyndist vera eitt af fjöllum Vítis. Ekki gegnheill, staðfastur grjótkubbur eins og Esjan, heldur risastór hrúga af lausum líparítflögum. Maður nær nánast hvergi fótfestu og stóri, ljóti úlfurinn hefði auðveldlega getað blásið því út í hafsauga. Maður stígur eitt skref áfram og rennur tvö aftur á bak og grjótið hrynur undan manni í hverju spori. Í fyrstu var ég nú bara keik, reiknaði með að þetta yrði svona upp rétt upp í hlíðina en myndi lagast þegar við kæmum að klettum nokkru ofar. Og þangað komumst við um síðir. En fögnum ekki of fljótt – martröðin var bara rétt að byrja.

 

 

Upp, upp, upp á fjall

Þessi fjallshlíð er ekkert sérlega þægileg yfirferðar. Ég renn í hverju skrefi, gríp í stein og ætla að toga mig upp á honum en þess í stað dreg ég út úr honum flögu. Þetta fjall er hreinlega mölbrotið. Ef maður snertir klett er eins víst að hann hrynji ofan á mann. Fallegt, vissulega, en viðsjárvert. Sumsstaðar er þetta skárra og þá heldur maður að nú sé það versta búið en svo kemur annar kafli þar sem manni er varla stætt.

Stoppum undir eina steininum í þessu fjalli sem er ekki að hrynja í sundur, til að hvíla okkur smávegis. Borðum snickers, troðfullt af litlum, viðbjóðslegum hitaeiningum en Einar heldur því fram orka sé nauðsynleg við þessar aðstæður og ef ég dey í dag mun ég hvort sem er ekki ná því að grennast áður en þeir brenna hræið af mér svo það er eins gott að njóta þess bara.

Já og leyfa tánum að sprikla auðvitað. Ég er vön að ganga í mjúkum skóm sem eru 1-1½ númeri of stórir og helst vil ég hafa þá óreimaða. En ok, eftir þessa reynslu skal ég fallast á að vondir skór geta verið nauðsynlegir.

Fallegt jújú, mikil ósköp, það er fallegt, satt að segja brjálæðislega fallegt og á meðan maður stendur kyrr, á þessum örfáu stöðum þar sem á annað borð er stætt, eða situr og horfir yfir finnst manni að þetta príl hafi verið erfiðisins virði.

 

 

 

En svo höldum við áfram og Maðurinn sem fer á taugum þegar konan hans gengur með lausar skóreimar á gangstétt skilur ekkert í þeirri sálarangist sem grípur konuna þegar hún áttar sig á því að þessi steinflöguskriða er ekki farartálmi heldur leiðin sjálf. Planið er semsagt að ganga í þessum grjótskriðum í marga klukkutíma. Því síður skilur hann aðvörunarópin sem ég rek upp í hvert sinn sem tugir kílóa af grjóti hrynja undan mér og hættulega nálægt honum.

„Einar minn, ef ég slasast hér þá getur þú komið mér undir manna hendur en ef ÞÚ slasast þá er ég bara í djúpum skít. Ég veit ekki einu sinni í hvaða átt ég ætti að fara til þess að finna Torfa.“

Einar heldur því auðvitað fram að í fyrsta lagi sé ekkert hættulegt þótt nokkur tonn af grjóti hrynji niður fjallið því þetta mun vera töfragrjót sem hefur þann undursamlega eiginleika að stoppa alltaf áður en það kemur að Einari Steingrímssyni. Í öðru lagi heldur hann því fram að hann geti ekki slasast enda hafi hann gengið á fjöll í fjörutíu ár og ekki slasast enn. (Eigum við eitthvað að ræða rökvillu?) Í þriðja lagi telur hann víst að símasamband sé einhversstaðar í þessu fjallavíti og í versta falli sé þá hægt að hringja eftir hjálp. Í fjórða lagði segir Maðurinn sem veit að konan hans villist fimm sinnum á leiðinni upp í Árbæ, að ef allt fari á versta veg muni hann bara segja mér hvernir ég eigi að komast niður. Einmitt það já? Gakktu bara yfir þennan hrygg og þá sérðu fleiri hryggi og tinda og allskonar og jökul í fjarska. Gakktu bara yfir þessa hryggi og niður í gil og þaðan yfir hól og ofan í skorning …

Finn grjótið hrynja undan mér. Maðurinn minn er augljóslega brjálaður. Hann fer EINN í svona ferðir og ætti samkvæmt öllum lögmálum að vera dauður. Þetta endar með því að hann snýr sig eða fær grjót í hausinn eða eitthvað. HVAÐ Á ÉG AÐ GERA EF HANN DEYR HÉRNA?

Um síðir myndi ég auðvitað ná í Torfa eða Landhelgisgæsluna og hvað ætti ég þá að segja? „Einar liggur hálsbrotinn í einhverjum líparítskriðum í einhverju fjalli. Nei það er ekkert kennileiti þar, bara grjót. Jújú það sést í einhver fjöll, þau eru öll eins. Sum með tindum og svoleiðis. Fannir í sumum þeirra. Sum dökk og sum ljós. Heyrðu jú, það er eitt sem er sérstakt hérna – það er ENGINN gróður. Ha, ég? Ég stend og held mér í eina fasta steininn í álíka ógeðslegum skriðum í einhverju öðru fjalli. Nei ég sé ekkert í kringum mig nema fjöll sem ég veit ekki hvað heita. Jú og klett. Einn af þessum sem brotnar ef maður andar á hann. Og annan lengra í burtu. Til hægri. Nei ekki hægri heldur hitt hægri, semsagt vinstri. Nei, ég kemst ekki niður. Þið verðið að sækja mig.“

Á endanum kæmi svo þyrla Landhelgisgæslunnar að sækja mig. Fyrrverandi kærasti er einmitt flugmaður hjá þeim „Hæ Pegasus, eruð þið búnir að finna líkið af manninum mínum? Nei ég drap hann ekki viljandi, hann neitaði að halda sig í hæfilegri fjarlægð. Svona fer fyrir þeim sem hlýða ekki konunni sinni príla upp um fjöll og firnindi.“

Það er fallegt í Helvíti en ekki vildi ég búa þar

Þetta hvíta er hausinn á dauðhræddri konu í fjallgöngu

Þessar tvær mosaþembur eru eini gróðurinn sem við sáum. Ég hefði ekki trúað því fyrr að algerlega gróðursnautt landslag gæti verið svona gífurlega fallegt og aftur kemur augnablik þar sem upplifunin er nánast lífshættunnar virði.

Eða kannski tvö augnablik eða þrjú.

 

 

Upp á fjallsins brún

Nálgumst toppinn og stöldrum við drjúga stund. Borðum meira snickers og drekkum vatn. Það er að segja ég drekk vatn, Einar vill ekki eyðileggja góðan þorsta. Finnst svo mikill lúxus að koma á tjaldstæðið og fá kaldan bjór. Eini lúxusinn sem mig þyrstir í er að vera ekki í lífshættu.

 

„Ertu orðin ægilega þreytt?“ spyr Einar þegar hann sér þennan svip.
„Ekkert svo rosalega þreytt, það er ekkert hægt að fara þetta hratt svo þetta er ekki eins mikil áreynsla og ég hélt. Ég hef hinsvegar verulegar áhyggjur af því hvernig við eigum að komast niður.

Ef við lifum það á annað borð af þá verðum við með þessu áframhaldi komin á tjaldstæðið undir miðnætti.
„Neinei,“ segir Einar hinn kátasti, „við förum sko niður hinummegin og það er ekkert mál, álíka langt og hálf leiðin neðan frá Steini, hlaupum það á hálftíma.“

Ég veit að þetta með hálftímann getur ekki staðist en ok, líklega fer þetta þá bráðum að skána. Mér finnst reyndar eins og Fjall Satans séð frá tjaldstæðinu sé bara ein, stór líparíthrúga en líklega förum við niður einhverja moldarfláka sem sjást ekki frá tjaldstæðinu. Það er allavega fallegt hér og nú er þetta bráðum búið. Svo heldur maður aftur af stað, dálítið hugrakkari og með heilt feitabollusnikkers utan á sér til viðbótar.

„Sko, nú erum við alveg að komast upp á topp“ segir Einar keikur að vanda. Ég skreiðist áfram en toppurinn færist ekkert nær. Og lengra. Og lengra. Svo allt í einu stendur Einar rétt fyrir ofan mig, kominn upp á brún. Ég brölti síðustu metrana upp til hans, býst kannski ekki alveg við Esjunni en GUÐ MINN GÓÐUR!

Þetta er semsagt leiðin niður

Þegar Einar talaði um hálfa leið niður frá Steini átti hann semsagt við vegalengdina, eða lækkunina, sem gefur manni vitanlega enga hugmynd um það hvernig manni muni ganga að komast niður.

Það er töluvert erfiðara að fara niður líparítskriður en upp, og nú finn ég að hörðu fjallgönguskórnir hafa nuddað á mér táneglurnar. Hefði líka þurft að klippa þær því minnsta högg er óþægilegt og það er ekki hægt að komast niður svona bratta nema fá smá högg á tærnar. Þau óþægindi eru þó viðráðaleg, ég er aðallega hrædd um að snúa á mér ökklann, eða að Einar fái grjót í hælana. En þetta eru víst engir Akkilesarhælar sem maðurinn er með.

„Einar, datt þér ekkert í hug að segja mér út í hvað við værum að fara?“ segi ég agndofa. Nei, það hafði bara ekkert hvarflað að honum að mér þætti það neitt mál að ganga nokkra kílómetra í lausagrjóti upp 30° halla, hvað þá að það gæti verið nokkurt mál að komast niður annað eins.

 

Niður, niður, niður, niður

Fikra mig varlega niður líparítskriður, stíf af hræðslu og verkjar í tærnar. Einar heldur því fram að best sé að láta sig bara gossa. Ég bíð bara eftir því að hann nái sér í steinflögu og skeiti á henni niður fjallið. Svo komum við að fönn. Það er léttir að geta stigið niður án þess að jarðvegurinn renni undan manni en nú er það ég sem renn. Sem betur fer næ ég ekki mjög miklum hraða áður en ég renn á Einar. Sem hlær bara.

Ég hef aldrei stigið á skíði en nú renni ég mér á fótskriðu niður fönnina. Ekki hvarflaði að mér þegar við lögðum af stað að ég væri að fara að leggja stund á vetraríþróttir.

 

Og svo klöngrast ég yfir meira grjót, að næstu fönn

og nú gengur þetta aðeins betur

Kosturinn við snjóinn er sá að ég kemst miklu hraðar yfir en með því að fikra mig yfir urð og grjót.

Þessar tvær fannir renndum við okkur yfir

 

Og eftir hverja þrekraun reynir Fjall Satans að fá mann til að trúa því að allt þjóni þetta tilgangi. (Þannig vinna síkópatar) Ég hef aldrei séð svona stóran zebrastein áður.

 

Sjáum loks niður á jörð. Ekki niður á tún heldur grjótmela. Ég sé fram á að komast restina hjálparlaust en á allt of löngum tíma og segi Einari að fara bara á undan mér. Líklega hljómar það öllu truntulegra en ég ætlaði mér. Ég var áhyggjufull fyrir en nú er ég orðin pirruð líka. Einar biðst þráfaldlega fyrirgefningar á því að hafa ofmetið hugrekki mitt og getu og lofar því að gera betur næst.
„Ég er ekki reið við þig enda tilgangslaust að reiðast fólki fyrir að vera veruleikafirrt en dettur þér í alvöru í hug að það verði eitthvað næst ég er pirruð, bæði út í sjálfa mig fyrir að hafa vaðið af stað án þess að vita hvað ég væri að gera og líka af því að neglurnar eru að nuddast af tánum á mér“ segi ég og ítreka það að honum sé óhætt að halda áfram á eigin hraða. Hann tekur það ekki mál.
„Í fyrsta lagi af því að ég elska þig og í öðru lagi af því að ég ætla að bera þig yfir ána“ segir hann. Bera mig yfir jökulá. Það sem þessum manni dettur í hug :-I

Það virðist mjög langt í tjaldstæðið en reynist styttra en ég held. Torfi er kominn þangað. Einar tekur ekki annað í mál en að bera mig yfir ána. Ég samþykki það því það versta sem getur gerst er að við blotnum og það er í lagi fyrst við erum næstum komin á tjaldstæðið. Torfi stendur hinum megin og tekur myndir.

Fyrst fór þessi elska yfir með bakpokann og þarna er hann
á leiðinni til baka til að sækja konuna sína.

Ferðin tók vitanlega ekki fjóra tíma heldur sex. Eins og ég sagði. En bjór bragðast betur í smákulda en skítakulda, ég tala nú ekki um þegar maður fær kjötsúpu að hætti Torfa með honum.

 

Lærdómur dagsins:

  • Fjallgönguskór eru ekki eins vond hugmynd og ætla mætti
  • Gott er að klippa táneglur áður en farið er í fjallgöngu
  • Maðurinn minn er veruleikafirrtur þegar íslensk náttúra er annars vegar
  • sem er reyndar skiljanlegt því fjöll eru töluvert fallegri en ætla mætti

Ekkert af ofangreindu er þó sérlega nytsamleg vitneskja nema maður sé nógu klikkaður til að reyna þetta aftur.

Deila færslunni

Share to Facebook