Ein af þessum góðu manneskjum

Í gær stóð ég við búðarkassa og ætlaði að kaupa jólapappír en var með kort sem ég nota sjaldan og mundi ekki lykilnúmerið. Stelpa, eitthvað á bilinu 17-22ja ára, sem stóð fyrir aftan mig í röðinni, rétti mér peningaseðil. Ég þáði hann ekki, af því að þetta var ekkert mikilvægt, en þetta snart mig. Hún hafði enga ástæðu til að ætla að ég væri verr stödd en hún fjárhagslega og ég bar mig ekki illa, svo þetta var ekki „aumingjagæska“ í algengasta skilningi orðsins, sennilega bara sama almennilegheitahvötin og sú sem er að baki þegar einhver heldur opnum dyrum fyrir ókunnuga manneskju sem er með fullt fang af innkaupapokum. Sennilega ekki yfirveguð ákvörðun heldur sú fastmótaða hugmynd að ef einhver er í smávægilegum vanda sem maður getur auðveldlega leyst, þá bara geri maður það.

Ókunnugt fólk sýnir hvert öðru einhver elskulegheit daglega, án þess að græða neitt á því og án þess einu sinni að geta litið á sjálft sig sem sérstaka dýrðlinga eða hetjur fyrir vikið. Við tölum samt ótrúlega lítið um það. Við tölum um það þegar einhver sýnir óvenjulega fórnfýsi; bjargar mannslífi eða reddar jólunum fyrir fátækling og við tölum um þá sem standa hjarta okkar næst. En við tölum ekki mikið um það ókunnuga fólk sem gerir okkur lífið auðveldara og yndislegra á hverjum einasta degi.

Deila færslunni

Share to Facebook