Betl

Það er áreiðanlega erfið vinna að vera betlari.  Sitja aðgerðalaus tímunum saman.  Augnaráð vegfarenda lýsa vorkunnsemi og þó oftar fyrirlitningu, þ.e.a.s. augnaráð þeirra sem á annað borð líta í átt til betlarans því flestir forðast að horfa á eymdina.  Og oftast lítið upp úr því að hafa.

Ég gef betlurum smápeninga ef ég á annað borð er með klink í vasanum þegar ég á leið fram hjá þeim.  Ég efast um að ég væri rík í dag þótt ég hefði aldrei gert það og þótt eitt pund til eða frá breyti engu um afkomu betlarans þá held ég að þeim líði ofurlítið betur í sálinni ef betliskálin eða húfan er ekki galtóm.

Betl í stað velferðarkerfis

Í Úganda er betl algengt.  Enda ekki við öðru að búast þar sem ekkert velferðarkerfi er til staðar.  HIV smit er algengt, kólera og berklar herja á fátækrahverfin og jafnvel yersinia pestis; sýkillinn sem olli plágunni sem við köllum svarta dauða, kemur upp af og til.  Heilbrigðisþjónusta hefur batnað mikið á undanförnum árum og Úgandamenn hafa náð tökum á farsóttum þegar þær koma upp en fólk hefur engar tekjur á meðan það er veikt.
Staða fatlaðra er afar slæm, ekki síst staða fatlaðra barna.  Þau eru ekki send í skóla, eru oft misnotuð á ýmsa vegu og foreldrarnir eiga það til að fela þau.  Örorkubætur eru ekki í boði frekar en sjúkradagpeningar og fatlaðir hafa ekki aðgang að hjálpartækjum.  Tvisvar sinnum sá ég fótalausa menn á götunni hífa sig áfram á höndunum.  Þessi fallegi piltur sem stillti sér upp fyrir myndavélina er með annan fótinn miklu styttri en hinn.  Hann á ekki hjólastól, ekki upphækkaða skó, og ekki einu sinni hækjur, bara þennan staf til að styðjast við.

Í Úganda er heldur ekkert atvinnutryggingakerfi.  Fjölskyldan er eina öryggisnetið og þegar hún er blásnauð liggur beinast við fyrir þá veiku, fötluðu og atvinnulausu að betla á götunum.  Víða má sjá börn, gamlar konur og konur með ungbörn sitja á götunni með betliskál og ferðamenn geta átt von á nokkurri ágengni.  Kynjahlutföllin eru áberandi, betl er greinilega ekki álitið karlastarf. Það kom mér dálítið á óvart að sjá hvað karlar eru í áberandi minnihluta betlara því ekki hafa karlar aðgang að neinu velferðarkerfi frekar en konur. En ég fékk skýringu. Kannski eru til fleiri skýringar en þessi eina.

Betl og glæpir

Við lentum í umferðarhnút og meðan við biðum kom kona með ungt barn á handleggnum að bílnum. Litla telpu, á bilinu 12-18 mánaða. Barnið var sljótt til augnanna og ég hugsaði að litla telpan væri kannski veik. Konan bað um “money for baby”. Við Einar vorum ekki með neitt klink og bílstjórinn harðneitaði að láta hana fá peninga. Það kom mér á óvart þar sem ég veit að hann er góðmenni og það kom satt að segja dálítið illa við mig að sjá hvað hann var ákveðinn. En hann útskýrði afstöðu sína.

Ég gef ekki betlurum peninga nema sé augljóslega um neyð að ræða. Málið er að betl er stundum hluti af skipulagðri glæpastarfsemi. Sáuð þið barnið? Svona pollrólegt. Það er mjög ólíklegt að þetta sé hennar barn. Börn eru leigð út til betlara og maður sér þau ekki gráta eða hlæja eins og önnur börn því þau eru dópuð upp svo þau trufli ekki starfsemina.

Skipulögð glæpastarfsemi. Skúrkar sem gera konur og börn út og taka sinn skerf af gróðanum. Nei ég er ekki að segja að allar konurnar séu endilega fórnarlömb eða að allir  karlar sem taka hluta af gróðanum séu glæpamenn. Konur og þó einkum börn eru líklegri til að vekja samúð svo það þykir sjálfsagt hagkvæmara að senda þau út á göturnar og margir betlarar, bæði þeir sem betla sjálfir og þeir sem hafa tekjur af betli annarra, ólust sjálfir upp við það að vera gerðir út til betls og þekkja kannski ekkert annað líf. Ég held reyndar að það gildi um skipulagða glæpastarfsemi af ýmsum toga að glæponarnir eigi sér langa  sögu fátæktar, ofbeldis og misneytingar. Slæm félagsleg staða gengur í erfðir og sjálfsagt eiga sumir þeirra sem standa á bak við þennan viðbjóð fárra kosta völ.

Menn hafa svosem reynt að grípa til aðgerða til að draga úr misnotkun á betlurum. Innan lögreglunnar er starfandi fjölskyldudeild en vandamálin eru alltof mörg og umfangsmikil til þess að hægt sé að búast við viðunandi árangri. Betlandi mæðrum hafa verið boðin störf við götuhreinsun en það er meira upp úr betlinu að hafa svo þær sjá sér lítinn hag í því.  Auk þess er bæði barnavinna og betl félagslega viðurkennt, ríkið fátækt, valdamenn spilltir og kannski eru það frekar einstaklingar en samfélagið sem heild sem sjá betl sem vandamál frekar en lausn á vandamáli.

Í eigin barm

Ekkert réttlætir það að dópa smábörn upp eða gera lítil börn að þrælum en það er auðvelt að segja það þegar maður þarf ekki að benda á neinar raunhæfari lausnir.  Og það er svo helvíti sárt að vita engar lausnir.  Kannski er það alltaf í einhverjum skilningi sjálfsþæging að styrkja fátæka.  Maður kann engin ráð og reynir að bæta fyrir það með brauðmylsnu sem engu breytir.

Á maður að gefa betlurum peninga, vitandi að hugsanlega hirði einhverjir hákarlar megnið af innkomunni?  Sjálfsagt ætti maður ekki að gera það.  En maður ætti heldur ekki að kaupa vörur sem hugsanlegt er séu framleiddar af þrælum.  Maður ætti eiginlega ekki að taka þátt í hagkerfi sem er svívirðilega óréttlátt gagnvart þeim sem ekki geta borið hönd fyrir höfuð sér og hin huggulegu vestrænu samfélög eru ekkert saklaus af því.  Þegar allt kemur til alls er skipulögð glæpastarfsemi stundum dulbúin sem betl.  Stundum sem kapítalismi.

Við getum fordæmt þá sem gera annað fólk út til að betla á götum Úganda og já, við eigum að fordæma verk þeirra.  Ofbeldi og misnotkun eru ekki menningarþættir sem við ættum að sýna virðingu, ekki frekar en við ættum að reyna að vernda plágusýkilinn frá útrýmingu. En kannski ættum við að líta í eigin barm líka.  Kannski oftar og kannski lengur í senn.

Þessi gamla kona var alveg til í að láta mynda sig
og varð ægilega kát þegar hún fékk smápening að launum