Koman til Kampala

 Húsgagnaverslun í Kampala

Úganda er land undarlegrar þversagnar. Hér er paradís á jörð. Fullkomið veðurfar; hitastigið á bilinu 20-27 gráður árið um kring. Hér er nóg vatn og frjósamur jarðvegur, góðar koparnámur, olía, m.a.s. heitt vatn. Engu að síður býr þorri Úgandafólks við sára fátækt. Hér rignir reglulega en samt búa um 40% Úgandamanna við ófullnægjandi aðgegni að drykkjarvatni. Viktoruvatn fullt af fiski, ræktarskilyrði frábær og meira en 80% þjóðarinnar eru bændur en samt sem áður þjáist stór hluti þjóðarinnar af næringarskorti. Um 40% barnadauða má rekja beinlínis til vannæringar og 38% barna undir 5 ára aldri eru vannærð. Þetta er Úganda. Landið er auðugt, þjóðin snauð.

Ég reiknaði með að sjá fátækt í Úganda. Ég vissi að til eru stórir hópar fólks sem búa í moldarkofum og öðrum hreysum. En ég vissi ekki að byggingar sem standa undir nafninu “hús” í mínum huga teldust beinlínis lúxus. Ég hélt að fréttamyndir segðu aðeins hluta af sannleikanum og að fátækrahverfi væru hverfi en ekki normið sjálft. Ég reiknaði með að meirihlutinn byggi við þröngan kost, kannski svona eins og Palestínumenn og að stórir hópar væru blásnauðir. En ég gerði mér enga grein fyrir því hvað fátæktin en mikil og almenn.

Koman til Kampala

Það fyrsta sem við sjáum þegar við lendum í Kampala er kýr á beit í útjaðri flugvallarins. Andrúmsloftið hér minnir meira á Ísland fyrir 40 árum en alþjóðlegan flugvöll og engum virðist liggja neitt á. Gestgjafi okkar bíður fyrir utan flugstöðvarbygginguna og við höfum á orði að ef ekki væru öll þessi pálmatré gæti þessi flugvöllur allt eins verið á Egilsstöðum. Hann jánkar því. “Svona er þetta líka í Kampala, eini munurinn á Egilsstöðum og Kampala er allt þetta svarta fólk”, segir hann. Fljótlega komumst við að því að það er hin mesta lygi.

Ég átti ekki von á hraðbraut inn í vestræna borg en ekkert af því sem ég sé á leiðinni er í neinni líkingu við það sem ég hafði ímyndað mér. Hér gengur búfénaður um götur, ekki bara í þorpunum heldur líka inni í miðri borg. Við ökum til Kampala eftir rauðum leirvegum og sjáum hvert kofatildrið á fætur öðru. Þetta eru mestmegnis fyrirtæki, skýli sem menn hafa hróflað upp úr spýtnabraki, greinum og bárujárni og skreytt með marglitum auglýsingaskiltum. Við sjáum líka heimili og þau eru ekkert veglegri en fyrirtækin en gestgjafinn segir mér að oft sé heimili fólks í sama “húsnæði” og fyrirtækið.

Í borginni ægir saman andstæðum ríkidæmis og fátæktar. Hér standa hlið við hlið hrófatildur á borð við þau sem sjást á myndinni hér að ofan og veitingahús og verslunarmiðstöðvar að vestrænni fyrirmynd.

Byggingin sem sést hér í bakgrunni er ítalski markaðurinn. Aðeins ríka fólkið verslar þar.

  Veitingastaðir almúgans eru meira í þessa veru

Túristabúðir eru í þokkalegum húsum með snyrtilegu umhverfi

Þessi fyrsti dagur var ævintýri á allan hátt. Meira að segja Eynar, sem venjulega lætur sér fátt um finnast eða þykist í það minnsta vera alls ósnortinn þótt ég sé eins og barn á jólum, starði í forundran.

Deila færslunni

Share to Facebook