Dagur eitt í Úganda

Úgandaferðin fór langt fram úr væntingum. Langsokkur negrakóngur reyndist hinn mesti höfðingi heim að sækja og auk þess hinn prýðilegasti  leiðsögumaður. Meira að segja Eynar, sem þóttist nú rétt mátulega spenntur þegar við lögðum af stað, talar um að fara þangað aftur.

Ferðin hófst reyndar með smá leiðindum. Við lentum í vélarbilun sem seinkaði brottför til Amsterdam um marga klukkutíma og misstum þ.a.l. af fluginu til Nairobi. Fengum næturflug þangað svo okkur seinkaði bara um hálfan sólarhring í staðinn fyrir heilan. Við höfðum þurft að fara út kl hálf fjögur um nóttina svo við fórum ekkert í rúmið og mér verður ekki svefnsamt í flugi. Við vorum heldur framlág þegar við lentum í Kampala að morgni annars páskadags en það var allt of margt áhugavert að sjá til þess að kæmi til greina að eyða deginum í svefn.

Langsokkur negrakóngur sótti okkur á flugvöllinn og strax á leiðinni til Kampala datt kjálkinn á mér niður á brjóst. Fátæktin sem allsstaðar blasir við á þessari klukkutímaferð inn í borgina er yfirþyrmandi. Ég skrifaði dálítið um það hér.

Þessi gata í Kampala er bara þó nokkuð hugguleg

Fyrsta daginn okkar í Kampala gerðum við lítið annað en að skoða mannlífið á götunni og hvíla okkur eftir ferðina. Við fórum með Langsokki í vestrænan stórmarkað til að kaupa í matinn. Mér fannst nú frekar svona slappt að vera komin til Afríku til þess að kaupa tómata í stórmarkaði og vildi frekar versla við sjálfsþurftarbændur á útimarkaði. Það var auðvitað látið eftir mér eins og allt annað en ég komst að því strax þennan fyrsta dag að hugmyndir mínar um litríka, afríska grænmetismarkaði eru algerlega úr takti við raunveruleikann. Hér eru kílómetralangar raðir af fólki sem er allt að selja eina tegund af grænmeti eða ávöxtum. Og við erum ekkert að tala um einn með tómata og annan með kartöflur, heldur eru kannski 20 í röð, allir að selja það sama.

Ég náði engri góðri mynd af dæmigerðum grænmetissala en fann þessa á netinu. Grænu bananarnir á myndinni heita matoke. Þeir verða ekki sætir heldur minna meira á kartöflur og eru uppistaðan í fæði margra.

Að lokum fundum við einn grænmetissala sem bauð upp á fleira en bara matoke eða kartöflur eða ananas. Sá seldi einnig ferskt kjöt, sem stóð óvarið á borði í sólinni, flugum til ánægju, og notuð húsgögn.

Ég held að Eynar hafi langað meira að versla við vestrænu búðina

 

Hvort má bjóða þér notaðan sófa eða kartöflur?

Við borðuðum grillaða nautalund um kvöldið og um það leyti sem við vorum að setjast til borðs upphófst mikill gleðskapur niðri í bæ. Born Again kirkjan byrjuð að djamma, var okkur sagt. Almennt skemmtanalíf tók svo við. Við vorum dauðþreytt eftir margra klukkutíma bið á flugvöllum og næturflug en það var greinilega mikið um að vera og ég var ekki viss um að við fengjum annað eins tækifæri til að líta á næturlífið svo við röltum niður í bæ. Hvílík mannmergð. Hver einasta gata eins og Reykjavík á menningarnótt en auk þess var hlýtt. Meðfram götunni stóðu óhrjáleg kolagrill þar sem margir tugir grillspjóta með svínakjöti og kjúklingavængjum lágu í haugum, óvarin í bílaútblæstrinum.

Mig dauðlangaði að taka mynd en Langsokkur réði mér eindregið frá því. Það er víst algengt að heimamenn séu viðkvæmir fyrir myndatökum og kemur fyrir að myndavélar og símar séu hrifsuð úr höndum túrista. Ég ákvað að geyma myndatökur, fá frekar vinsamlegt leyfi við betri aðstæður, í dagsbirtu þegar fyllirí væri ekki áberandi. Það varð reyndar ekkert af því en ég fann, eftir mikla leit, myndina hér að neðan á netinu. Ég er dálítið hissa á því að finna ekki helling af svona myndum því þessi grill eru úti um allt.

Ég verð að játa að mér fannst nautalund Langsokks negrakonungs öllu geðslegri. Fannst samt næstum að mér bæri siðferðileg skylda til að smakka. Eynar var því hjartanlega  ósammála og það fór nú svo að ég tímdi ekki að taka áhættu á að eyða tímanum mínum í Úganda í veikindi.

Við fórum inn á nokkra skemmtistaði. Hávaðinn alveg jafn ærandi og á vestrænum börum og ölvunarástandið svona eins og við er að búast á laugardagskvöldi í Reykjavík. Það sem kom mér mest á óvart var að þrátt fyrir hauga af rusli meðfram götunum varð ég varð ekkert vör við sorplykt. Kannski drukknaði hún í megnuninni frá bílum og vélhjólum. Skýrining er allavega ekki sú að sorphirða sé svo góð hérna. Helsta aðferð fólks til að losa sig við sorp er að brenna það.

Ég komst fljótlega að því að mér hefði verið óhætt að fara snemma í rúmið þetta kvöld. Ég hefði ekki misst af neinu sem er í boði öll kvöld vikunnar. Í Kampala stendur gleðskapurinn fram til kl 6 á morgnana, allar nætur. Það er alveg sama á hvaða tíma nætur maður vaknar, ómur af tónlist og háværum samræðum slitnar ekki fyrr en með morgunbænum moskunnar.

Þetta var bara fyrsti dagurinn en næstu tvær vikur urðu eitthvert mesta ævintýr sem ég hef upplifað. Við skoðuðum Kampala undir leiðsögn krúttlegra mótorhjólastráka. Drukkum gin og tónik á bökkum Nílar, fórum í skemmtisiglingu og flúðasiglingu og skoðuðum Murchisons þjóðgarðinn.

Ég hitti marga fíla, ljón og krókódíla en bara tvær moskítóflugur. Var svo heppin að fá engin útbrot eða önnur óþægindi eftir þau vafasömu kynni.

Auðvitað hjálpaði það til að við sváfum í þessu rúmi og svo brennir Langsokkur negrakóngur sérstök reykelsi sem fæla moskítóflugurnar burtu úti á veröndinni á kvöldin.

Frábær ferð í alla staði. Þetta er bara fyrsta færsla af mörgum.

Deila færslunni

Share to Facebook