Allt þetta ár hefur líf mitt verið fullkomið að öðru leyti en því að það stendur víst ekki í mínu valdi að útdeila öðru fólki heppni og veitti þó ekki af. Hvað sjálfa mig varðar hef ég bara aldrei á ævinni verið eins ánægð. Ég vissi alveg að einhversstaðar væri til karlmaður sem ég ætti samleið með en að samband gæti verið átakalaust en samt skemmtilegt á hverjum einasta degi, það vissi ég ekki.
Við höfum greinilega fengið fullkomna leigjendur. Allt skínandi hreint og fínt þegar við komum heim og þær skildu m.a.s. eftir konfekt og jólakveðju.
Ég hlakka til Þorláksmessutónleika Bubba. Sérstaklega til að heyra lagið hans við Cranky Old Man. Ég þýddi nefnilega textann en hef enn ekki heyrt lagið.
Það er að vísu vitleysa að ljóðið hafi fundist í fórum vistmanns á elliheimili en mér finnst það ekki skipta neinu máli.
Og svo eru Evulög komin út. Það er hægt að panta disk með því að senda póst á gimaldin@gmail.com eða í gegnum þessa síðu.
Og svo eru að koma jól og ég er ekki einu sinni með feituna. Hversu fullkomið getur eitt líf orðið?
Hér er svo kvæðið:
Gamli skröggur
Þú stúlka sem hrumum mér hjúkrar á slig.
hvað ertu hugsa er þú horfir á mig?
Leiðindafauskur, fálmandi skarn
með augu svo fjarræn og fávís sem barn.
Sokkunum týnir, sjaldan man neitt
og skilur ekki í því að þú sért svo þreytt.
Slefar og spilar sig sljórri en hann er
heyrir það eitt sem ætlar hann sér
og ei vill hann láta þig ákveða það
hvernig og hvenær þá hann fer í bað.
Streitist á móti, staður sem naut
er þú hann matar á mauki eða graut
og þó veit hann vel hver er valdhafinn hér
með góðu eða illu, svo geðjast hann þér.
Heldurðu að þetta sé allt sem ég er
horfðu þá aftur í augun á mér.
og opnaðu hjartað og hlustaðu á
er sögunni minni ég segi þér frá.
Ég óx upp í samlyndum systkinahóp
við bĺíðu og mildi sem móðir mín skóp
hjá föður sem sagði okkur sögur og hló
fátt var um leikföng, en um faðmlög var nóg.
Á sautjánda ári af ástarþrá brann
og loksins þá réttu í lífinu fann.
Um tvítugt með hringum við treystum vor heit
og aldrei neitt áfall það óskaráð sleit.
Fimm árum síðar mér fædd voru börn
og heimilið var þeirra huggun og vörn
við þjónustu og leiki þau þroskuðust vel