Gallaður kjóll

Ég skundaði götuna fast á hæla Eynari, náði andanum á meðan hann tvísté við gangbrautarljós en snaraðist svo á eftir honum þegar hann sá sér færi á að skjótast á milli vélhjóls og vörubíls. Á rauðu ljósi að sjálfsögðu.

“Af hverju erum við að flýta okkur?” spurði ég á innsoginu, og vissi ekki betur en að við hefðum allan tíma í heiminum.
“Við erum ekkert að flýta okkur, ástin mín, þú gengur bara svona hratt” svaraði Eynar, tók um axlirnar á mér og smeygði mér fimlega milli tveggja eldri kvenna sem annars hefðu tafið okkur í allt að eina sekúndu. Ég velti því stundum fyrir mér hvort ég kæri mig yfirhöfuð um að verða vitni að því sem gerist þegar Eynar flýtir sér því maðurinn reimar skóna sína í lyftunni, til að nýta tímann og kallar gönguhraða upp á 8 km/klst að “rölta í rólegheitunum”. Mér finnst andskotans nóg að ganga 5 km/klst og skilgreini allt yfir 7,5 sem hlaup en sennilega kemst ég í form á endanum bara af því að búa með honum.

“Ég hleyp upp til að kaupa miða, þú kemur bara á eftir mér og ferð svo til vinstri” sagði hann um leið og við örkuðum inn á lestarstöðina.
“Af hverju ætlarðu að hlaupa? Fer ekki önnur lest eftir fjórar mínútur?” sagði ég.
“Ég þarf að hlaupa stiga til að halda mér í formi og svo ætla ég ekkert að fara að bíða í biðröð á meðan einhverjir gaufarar leita að klinki í vösunum sínum” svaraði Eynar. Hljóp svo á harðaspretti upp tröppurnar, vandlega merktar “Hold rail, don’t run” og hvarf fyrir hornið. Hann stóð fjaðrandi af óþolinmæði og beið eftir afgreiðslu þegar ég kom upp, kippti svo miðunum af miðasalanum með annarri hendinni, mér upp úr skónum með hinni og sveiflaði mér inn í lestina. Skórinn minn var eftir á brautarpallinum. Ég reikna fastlega með að einhver prins banki upp á í vikunni og biðji mig að máta en ég er búin að fá aðra og betri svo hann má bara hirð’ann.

Á meðan ég mátaði kjóla, skálmaði maðurinn minn um búðina og reif niður fleiri flíkur, (hannaðar á súpermódel) sem hann taldi líklegt að færu mér vel. Sem merkir auðvitað að hann þurfti að bíða ennþá lengur á meðan ég mátaði en ekki kvartaði þessi elska yfir því. Kannski hefur hann drepið tímann með því að slíta niður kjóla fyrir aðrar konur til að máta? Eða endurraðað á fataslárnar, eða pússað speglana? Það hljóta að vera einhver takmörk fyrir því hversu oft hann nennir að reima skóna sína. (Hann er reyndar búinn að segja mér núna að hann hafi verið að hugsa um stærðfræði en af einhverjum dularfullum ástæðum getur hann alls ekki hugsað um stærðfræði á rauðu ljósi.)

“Þessi leit vel út á herðatré en sniðið er gallað. Það lítur út fyrir að þú sért með kepp þarna” sagði Eynar þegar ég kom fram til að leita álits hans.
“Sniðið er ekki gallað Eynar, ég ER með kepp þarna.”
“Hvaða vitleysa, þú ert ekki með neinn kepp, kjóllinn er bara með þrengingu á vitlausum stað” sagði hann og tróð upp á mig fleiri kjólum sem einnig reyndust “gallaðir”. Við fundum nú samt á endanum bæði kjóla og toppa sem ég gat notað og næst lá leiðin í nærfatadeildina en hýjalínið mitt hefur stækkað í þvotti síðustu vikurnar.

“Nei, þessi gengur ekki, þetta er allt of lítið á þig, ég myndi giska á þessi væri nær lagi” sagði Eynar og rétti mér brjóstahaldara sem hefði passað á klámmyndastjörnu.
“Nei elskan, það er nefnilega rétt hjá þér að ég hef grennst en því miður hefur fitan að mestu leyti farið af röngum stöðum svo þessi litli hérna er í réttri stærð” sagði ég.
“Það getur ekki verið að þetta passi.”
“Ójú.”
“Jæja? Hvort okkar heldur þú að hafi meiri reynslu af kvenmannsbrjóstum?” sagði stærðfræðingurinn sem er ekki í neinum vandræðum með að meta umfang appelsínu eða byggingarkrana en virðist missa rýmisgáfuna hið snarasta þegar brjóstastærð mín er annarsvegar.
“Ég gæti nú reyndar trúað því að ég hafi meiri reynslu af því að máta brjóstahaldara” sagði ég og hann mótmælti því ekki en ítrekaði þó yfirgengilegar ranghugmyndir sínar um líkamsvöxt minn.

“Sko, ég sagði það, þetta er of lítið á þig” sagði Eynar þegar við vorum komin heim og ég sýndi honum herlegheitin.
“Nei Eynar, hann er ekki of lítill, hann smellpassar” sagði ég.
“Núna í augnablikinu kannski en þú þarft ekki annað en að fitna dálítið og þá er hann orðinn of lítill.”
“Fyrirgefðu en hver segir að ég sé að fara að fitna?”
“Ég reikna með að þú sveiflist eitthvað eins og annað fólk.”
“Ef ég leggst í sykur og rjóma já en mér finnst svekkjandi að passa ekki í almennileg föt, þannig að nei, ég er ekki að fara fitna.”
“Almennileg föt? Áttu við buxur sem eru sniðnar á unglingsstráka og þessi gölluðu kjólasnið sem þú varst að máta í dag?”
“Hvernig færðu það út að þau séu gölluð?”
“Snið sem passar ekki utan á konu sem er fullkomin í vextinum, er augljóslega gallað.”

Þar hafið þið það. Samkvæmt fatanúmerum er ég feitabolla, með allt of stutta mjaðmagrind og bol, of svert rifjahylki og brjóst sem eru mörgum númerum minni en rassinn á mér. Maðurinn minn er mesti raunhyggjumaður sem ég hef kynnst. Engu að síður telur hann mig hafa stór brjóst og fullkomin læri og heldur fast við þær hugmyndir enda þótt gögnin (málband og fatasnið) segi allt annað.

Svona liti Gwyneth Paltrow út í gölluðum kjól

Almennt þykja mér ranghugmyndir frekar slæmar. Í þessu tilviki er ég samt nokkuð sátt við þær. Og ekki er verra að maðurinn minn kann fleiri þrennur af töfraorðum en flestir aðrir. Í dag eru töfraorðin þrjú “ekki grennast meira.”

 

Deila færslunni

Share to Facebook