Þannig sparar maður 3000 hitaeiningar

Af og til dett ég niður í megna óánægju með holdafar mitt. Ég hef verið í nánast sömu þyngd frá því ég var um tvítugt, rokkað um 1-2 kg, svo líklega segir þessi óánægja líklega meira um andlegt ástand mitt en líkamlegt.

Ég væri til í að vera módellegri í vextinum en þar sem er útilokað að stjórna beinabyggingu hef ég ekki séð tilgang í að velta mér upp úr því. Það er hinsvegar hægt að stjórna þyngdinni og þegar ég fæ ljótuna tek ég nokkurra vikna törn og reyni að hrista af mér lærakeppina.  Ég virðist þó ekki geta losnað við þá nema með því að grenna mig svo mikið að efri hluti líkamans verði eins og beinagrind í latexgalla. Hef íhugað fitusog en finnst svæfing vera of mikil áhætta til að undirgangast bara fyrir einhvern hégóma og ekki virka lyftingar svo ég hætti yfirleitt að nenna að mæta í ræktina eftir 6-8 vikur.

Ég var afskaplega vel alin í vetur og í þetta sinn fitnaði ég ekki bara á lærunum, var líka komin með brjóst, sem er í sjálfu sér í ágætt en aukinheldur bumbu og mjaðmaspik sem ég var hreint ekki ánægð með. Veit ekki nákvæmlega hversu mikið ég þyngdist, átti ekki vigt, en hef líklega verið komin upp í ca 51 kg. Mín kjörþyngd er 47 kg (missi brjóstin ef ég fer undir það en um leið og ég fer yfir 48 finnst mér ég orðin feit) og þótt 3-4 kg hljómi ekki eins og neitt til að hafa áhyggjur af, sjást þau mjög fljótt og greinilega utan á svona litlum skrokk. Þar sem ég nenni ekki að fara í margra mánaða megrun ákvað ég að gera eitthvað í málinu áður en það yrði erfitt.

Ég byrjaði í megrun á megrunarlausa deginum. Fyrsta megrunarmáltíðin mín var súkkulaði krossant og ég ætla aldrei að þyngjast svo mikið að ég þurfi að neita mér um það eða neitt annað. Ég borðaði bara hálft í staðinn fyrir heilt eins og venjulega. Sukkjafnaði svo með kjúklingasalati eða einhverju öðru léttu um kvöldið. Fimm vikum síðar var ég 47 kg. Semsagt lést um 3, hugsanlega 4 kg. Af því að megrun virkar, hvað svo sem feitabollufeminstar segja.

Mér fannst ekkert erfitt að skera niður í þessar fimm vikur en núna þegar ég er farin að borða eðlilega, langar mig allt í einu ósköpin öll í helling af orkuríkum mat. Ég er ekki svöng en líkaminn er íhaldssamur andskoti sem vill helst komast í sama far aftur og lýgur því stöðugt að mér að hann hafi þörf fyrir eitthvert ógeð sem er morandi í kolvetnum og fitu. Nú skilst mér að megrun hægi auk þess aðeins á brennslunni og rýri vöðvamassa svo þótt ég ætli ekki að grennast meira ætla ég samt að fylgjast vel með því sem ég læt ofan í mig næstu vikurnar til að þyngjast ekki aftur.

Deila færslunni

Share to Facebook