Lúxusvandamál

Ég get ekki sagt að vandamálum mínum hafi fækkað við það að fara í sambúð og Eynar á eins og allt fólk við ákveðin vandamál að stríða. Vandamálin hafa samt breyst töluvert. Ég hef ekki lengur áhyggjur af því hvort ég frekar eigi að borða poppkorn í kvöld og pítubrauð annað kvöld eða öfugt, heldur hvort ég eigi að borða svínalund í kvöld og fara út að borða á morgun eða öfugt. Ég hef ekki lengur áhyggjur af því hvort ég eigi fyrir asthmalyfjum ef ég þarf á þeim að halda heldur hvort ég muni þurfa á þeim að halda. Ég hef ekki áhyggjur af því hvernig ég eigi að fá manninn minn til að skipta um skoðun á einhverju, heldur því hvernig ég eigi að fá restina af alheiminum til að skipta um skoðun. Hér eru nokkur dæmi um vandamál síðustu daga.

Um síðustu helgi var Eynar ákveðinn í að gefa mér gott rauðvín. Hann hafði keypt nýja tegund og dauðlangaði að opna flöskuna en átti Amarone sem við vitum að er gott. Hann þurfti því að velja á milli þess að taka áhættu á því að nýja vínið væri nógu gott, (sem hefði getað þýtt að við yrðum að opna tvær flöskur sem hefði væntanlega endað með því að eitthvað af víninu færi í vaskinn sem er gróf móðgun við bæði Mammon og Bakkus) eða fara öruggu leiðina og geyma sér ánægjuna af því að prófa nýja vínið.

Ég er búin að geyma margenstertubita í fyrsti í fjóra mánuði. Mér skilst að það séu hverfandi líkur á sýkingu á meðan hún þiðnar ekki svo sú ástæða til að henda henni er úr sögunni. Nú er höfuðsynd að henda mat en á hinn bóginn er þetta magn af sykri og rjóma glæpur gegn kransæðunum og fyrst við höfum ekki fundið tilefni til þess að borða margenstertu á fjórum mánuðum, langar okkur sennilega ekki nógu mikið í hana til það sé þess virði að fá feituna út á hana. Hinsvegar veit ég af reynslunni að það mun koma að því að mig langar í eitthvað með sykri og rjóma enda þótt ekkert tilefni kalli á tertu. Ekki svo sárlega að ég æði út í búð eftir einhverju sukki eða taki upp á því að baka en nógu mikið til að ég mun éta það sem til er heima af feitmeti. Hvort á ég að fremja þá synd að henda þessum tertubita eða taka séns á því að hann sé til, næst þegar græðgin grípur mig?

Fötin mín hafa stækkað. Sem merkir að ég get annað hvort notið þess að gúlla í mig sykri og rjóma þar til þau hafa minnkað aftur eða verið skvísa og haldið áfram að borða mikið grænmeti og sukka í hófi. Eynar virðist vera staðráðinn í að halda áfram að ofdekra mig, hvort á ég að fá hann til að kaupa þrengri kjól handa mér eða súkkulaði og rjómalíkjör?

Það er orðið frekar heitt í stofunni. Það er ekkert mál að draga úr hitanum bara með því að draga fyrir gluggann. En ef við gerum það sjáum við ekki þetta dásamlega útsýni yfir ána. Hvað í ósköpunum á maður að gera í svona stöðu?

Eynar ákvað að kaupa hlut í gegnum netið. Vandamálið hvort hann ætti að senda inn pöntun strax og taka áhættu á því að láta póstinn vekja sig fyrir klukkan 10 á mánudagsmorgni eða hvort hann á að bíða þar til á morgun, þar sem hann neyðist hvort sem er til að fara “snemma” (þ.e. fyrir kl 10) á fætur á þriðjudaginn.

Það er loksins komið sumar. 22ja stiga hiti og sólskin en á sama tíma er fullt af fávitum á internetinu sem þarf að leiðrétta. Hvort á ég að fara út með hvítvínsglas og bláber eða uppræta heimsku mannanna?