Um hvað snýst þungunarrofsfrumvarpið?

Tæpra 20 vikna fóstur. Barn eða frumukökkur?

Umræðan um þungunarrofsfrumvarpið einkennist af þekkingarleysi, tvískinnungi og einbeittum skorti á vilja til þess að viðurkenna hvað málið snýst um – nefnilega það hvernig við skilgreinum manneskju. Ég hef ekki gert upp við mig sjálf hvar eðlilegast væri að draga mörkin. Mig langar hinsvegar að gera athugasemir við nokkrar vafasamar fullyrðingar sem eru áberandi í þessari umræðu.

 

1 Þungunarrof er heppilegra orð en fóstureyðing

Rangt
Þungunarrof er ágætt orð og lýsandi fyrir þá aðgerð að fjarlægja fóstur úr móðurkviði. En þegar það er gert er um leið bundinn endir á líf fóstursins. Fóstrið er oftast deytt með lyfjagjöf og tekið úr þeim aðstæðum sem eru því nauðsynlegar til að geta lifað.

Setjum sem svo að par eignist mjög veikt og fatlað barn sem mun augljóslega alltaf vera því byrði. Hvað ef barninu er gefið svefnlyf og það sett í aðstæður þar sem það getur ekki lifað, t.d. í kæliskáp eða ofan í vatnsfötu? Köllum við það ómegðarrof eða uppfóstrunarrof?

Orðið þungunarrof setur fókusinn algerlega á rétt móðurinnar. Ég er ekki að segja að það eigi ekki rétt á sér en það er ekki lögmál heldur spurning um sjónarhorn. Það má alveg eins horfa á málin út frá rétti fóstursins og tala um fósturdráp.

 

2  Já en þetta snýst einmitt um yfirráðarétt móðurinnar yfir eigin líkama

Rangt
Ef sú væri raunin þá væru mörkin ekki dregin við 22 vikur, eða eins og í Bretlandi og Danmörku við 24 vikur.

Hversvegna ætti ríkið að hafa rétt til að neyða móður til að ljúka meðgöngu og fæða barn ef hún kemst að þeirri niðurstöðu í 30. viku meðgöngu að hún vilji það ekki? Augljóslega af því að þetta snýst ekki bara um rétt móðurinnar heldur um rétt fóstursins líka.

 

3  Munurinn er sá að 30 vikna fóstur getur lifað utan móðurkviðar en 22ja vikna fóstur ekki

Þessi réttlæting heldur ekki vatni
Í fyrsta lagi eru dæmi þess að 22ja vikna fóstur og jafnvel yngri hafi lifað af.
Í öðru lagi fer tækninni stöðugt fram og það er bara tímaspursmál hvenær lífslíkur 21 viku gamals fósturs verða jafn góðar og lífslíkur 25 vikna fósturs eru í dag. Og hvað gera Danir þá? Færa mörkin til baka? Auðvitað ekki. Það verður fundin ný réttlæting.

Frelsi konu til að láta deyða fóstur byggir á þeirri hugmynd að fóstrið sé ekki manneskja heldur frumukökkur. Sá réttur kallast á við siðferðilegt vandamál; hvenær breytist fóstur í manneskju sem nýtur lífsréttar? Samkvæmt því sem lagt er til í frumvarpinu verður fóstur að manni þegar lífslíkur þess utan móðurkviðar ná ákveðnu marki.

Árekstur réttar móður og réttar fósturs sem samkvæmt undirliggjandi skilgreiningu telst manneskja er fyrirsjáanlegur. Þessvegna væri æskilegast að taka strax upp skilgreiningu sem er líkleg til að duga amk í nokkra áratugi. T.d. mætti skilgreina fóstur, alveg fram að náttúrlegri fæðingu, sem eign móðurinnar. Þannig yrði farið með fóstrið líkt og dýr. Dýr hafa ekki persónuleg réttindi en menn hafa samt sem áður skyldur gagnvart þeim. Eigandinn má láta deyða dýrið ef honum sýnist svo en hann má ekki kvelja dýrið. Með þessari skilgreiningu gæti móðir losað sig við fóstrið alveg fram að náttúrulegri fæðingu og frelsi hennar yrði þannig tryggt.

 

4  Það er bara verið að tryggja konum rétt til að þurfa ekki að ganga með mikið fötluð fóstur sem eiga litlar lífslíkur

Rangt
Það er nú þegar löglegt að eyða „gölluðum“ fóstrum eftir 16. viku en til þess þarf umsókn að fara fyrir nefnd á vegum landlæknisembættisins. Engin efri mörk eru skilgreind í núgildandi lögum  og ekki er heldur gert ráð fyrir slíkum mörkum í þungunarrofsfrumvarpinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að kona geti einfaldlega pantað fóstureyðingu til loka 22. viku, án þess að spyrja fagfólk, föðurinn eða nokkurn annan álits. Eins og segir í greinargerð með frumvarpinu:

Lagt er til að konu verði veitt fullt ákvörðunarvald um það hvort hún elur barn fram að lokum 22. viku þungunar, óháð því hvaða ástæður liggja að baki þeim vilja konunnar.

 

5  En þetta mun engu breyta því konur eru ekkert að láta eyða fóstri að ástæðulausu

Rétt og rangt
Þetta mun sennilega sáralitlu breyta á næstu árum um fjölda fóstueyðinga sem framdar eru eftir 16. viku. Tilhugsunin um að fæða andvana fóstur (stundum fæðast þau reyndar lifandi) sem lítur út eins og ungbarn og fleygja því í ruslið er sennilega flestum konum nógu þungbær til þess að fáar taka þá ákvörðun nema í mikilli örvæntingu.

En rökin „þetta verður hvort sem er svo sjaldan notað“ eru líka réttlæting Islamskra trúarleiðtoga fyrir því að fordæma ekki hina nýju Sharia löggjöf Brunei. Það er sjaldgæft að fólk sé dæmt til grýtingar, það réttlætir samt ekki lögin. Ef foreldrum yrði heimilað að láta deyða barn allt að 3 vikum eftir að það fæðist myndu sennilega mjög fáir nýta sér það. Það myndi samt ekki réttlæta slík lög.

 

6  Það verður að auðvelda konum að fara í þungunarrof enda gerir það engin nema í neyð

Rangt
Um 20% þungana á Íslandi lýkur með fóstureyðingu. Árið 2017 fæddist 4.071 barn á Íslandi. Sama ár var 1044 fóstrum eytt. Víðast hvar í Evrópu eru flestar konur sem fara í fóstureyðingu á kjöraldri til barneigna (20 – 30 ára). Samkvæmt breskri rannsókn á fóstureyðingum árið 2017 höfðu 38% þeirra kvenna sem fengu fóstureyðingu farið í slíka aðgerð áður. Samkvæmt sömu rannsókn voru 98% fóstureyðinga framdar vegna velferðar móðurinnar en ekki af því að eitthvað væri að barninu. Langflestar fóstureyðingar eru framdar af „félagslegum ástæðum“, sem oftast merkir bara að það hentar konunni ekki að eignast barn. Það eru ekki örfáar, bláfátækar unglingsstúlkur í neyð sem fara í fóstureyðingu, heldur er þetta nokkuð algeng ráðstöfun.

Skýringin á hárri tíðni fóstureyðinga er bersýnlega ekki skortur á þekkingu eða slæmt aðgengi að getnaðarvörnum. Af hverju eru fóstureyðingar notaðar á svipaðan hátt og getnaðarvarnir ef þetta er svona ægilega erfið ákvörðun? Kannski er hún bara ekkert voðalega erfið í samfélagi sem lítur ekki á 22ja vikna fóstur sem manneskju.

Það má alveg reikna með því að með ennþá frjálslegri löggjöf breytist viðhorfin og það fari smámsaman að þykja allt í lagi að deyða fóstur alveg fram í 22. viku (en ekki neyðarráðstöfun eins og ríkjandi viðhorf er í dag). Og þá mun þeim tilvikum fjölga. Það er kannski allt í lagi. Gott og vel en hættum þá þessum tepruskap. Hættum að tala um „þungunarrof“ og halda því fram að engin kona fari í fóstureyðingu nema í neyð. Það er nefnilega ekki satt. Segjum frekar hreint út að það sé allt í lagi að drepa 22ja vikna fóstur af því að það teljist ekki mannvera og eigi ekki lífsrétt.

 

Deildu færslunni

Share to Facebook