Eigi skal mása

kfum

Munið þið eftir æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar? Söngvunum sem sungnir voru í sunnudagaskólanum og síðar hjá KFUM og KFUK.

Ég er ekki í fótgönguliði,
riddaraliði, stórskotaliði.
Ég er ekki í flughernaði.
Ég er hermaður Krists.

Ok, þetta er kannski ekki stórkostlegur kveðskapur en hann þjónar tilgangi. Þeim tilgangi að þjappa krökkunum saman, vekja þeim eldmóð og styrkja sjálfsmynd þeirra sem sanntrúaðra hermanna Krists og þar með hjarðeðli þeirra.

Ég mætti ekki í sunnudagaskóla. Var óþolandi í biblíusögutímum því ég kunni námsefnið utanbókar en krafðist skýringa. Hvurslags eiginlega siðferði það væri að gjalda þeim síðustu fyrst og dekra vandræðaunglinginn í fjölskyldunni? Gerði síðar mjög heiðarlega tilraun til að verða trúuð en þar sem þessi djúprætta tilhneiging mín til gagnrýninnar hugsunar þvældist alltaf fyrir mér, tókst mér aldrei að trúa á Gvuð. Hvað þá því að ástæðulaust væri að draga í efa siðareglur örfárra manna sem ólust upp á öðru tímaskeiði í öðrum heimshluta.

Ég var illa trúuð og á sama hátt er ég afspyrnuvondur feministi. Mun sennilega aldrei trúa því að bleikir legókubbar séu kvenfjandsamleg hugmynd eða að það að koma inn tískuvitund hjá börnum, jafngildi því að gera þau að klámdrottningum. Mun sennilega alltaf trúa því að það sem vantar enn upp á að íslenskar konur standi jafnfætis körlum, verði ekki leiðrétt með utanaðkomandi aðgerðum, heldur með því að finna þá innri þætti sem halda aftur af okkur, hvetja konur til að taka meira frumkvæði og meiri ábyrgð og gera jafnframt kröfu um það. Samfélag okkar stýrir konum nefnilega ekki síður í fórnarlambshlutverk en umönnunarstörf og fórnarlömb geta kannski verið ofdekruð en þau verða aldrei sigursæl í jákvæðri merkingu þess orðs.

Ég mun sennilega heldur aldrei taka undir hugmyndir um að hömlur á tjáningarfrelsi stuðli að kvenfrelsi.

Engu að síður hef ég ákveðna samúð með þeim konum sem standa í þessari baráttu gegn klámi. Ekki baráttunni sjálfri því hún er ekki bara vonlaus, heldur líka ástæðulaus, heldur með þessum manneskjum sem eru fullkomlega sannfærðar um að nýpúritanismi sé raunverulegt meðal við ofbeldi og kvennakúgun. Þetta eru nefnilega góðar konur og vilja vel þótt hugmyndafræðin sé gjörsamlega galin.

Stundum gengur þó svo fram af mér að samúðin víkur fyrir fáránleikatilfinningunni og mér líður eins og ég hafi álpast inn í sunnudagaskóla. Það var einmitt tilfinningin sem greip mig í gær, þegar ég las þennan pistil. Ef er hægt að kafna úr vandlætingu þá vantar þessa konu öndunarvél.

Ég hefði viljað svara greininni en finnst eins og ég gæti allt eins reynt að rökræða við votta Jehóva. So if you can’t beat them, join them; sagði púkinn á fjósbitanum og hvíslaði í eyra mér tilbrigði við hermenn Krists. Útsett fyrir hjáróma kvennakór og undirleik Árna Johnsen.

Ég læt aldrei vessana vella,
markaðsvædd, klámgerð kynfærin smella.
Ég er engin másandi mella.
Ég er kynverund mín.

Deildu færslunni

Share to Facebook