Feminisminn er fullur vandlætingar gagnvart kvennamenningu. Konur sem hafa áhuga á tísku og útliti eru sívinsælt skotmark. Fjandsamleg viðhorf til kvennamenningar koma jafnvel fram í umræðunni um leikföng. Það þykir ótækt að bjóða stelpum upp á kaffihús, dýraspítala og snyrtistofur af því að það er „ekki gagnlegt fyrir samfélagið“ eins og það er orðað í þessum knúzpistli. Líklega telst það gagnlegra að berjast við skrímsli og standa í styrjöldum.
Ég verð ekkert vör við niðrandi umræðu feminista í garð kvenna í boltaíþróttum eða kvenna með vélhjóladellu. Ætli það sé af því að þessi áhugamál krefjist meiri djúphygli eða fólk með þessi áhugamál sé betur máli farið en stelpur sem taka þátt í fegurðarsamkeppni? Ég held ekki . Ég sé ekki betur en að umræðan um lítinn áhuga stúlkna á raunvísindum, boltaíþróttum, spurningakeppnum o.fl. afhjúpi það viðhorf að karlamenning sé mun merkilegri en menning kvenna.