Nokkrar athugasemdir í tilefni af þessari grein:

Þeir sem gagnrýna feminista eru aðallega karlar sem hafa andskotans engin völd að verja en eru ósáttir við að vera úthrópaðir sem kúgarar og ofbeldismenn og finnst að mörgu leyti halla á karlmenn. Hinsvegar konur sem telja að sumar áherslur feminista stríði gegn hagsmunum kvenna og stuðli að verra samfélagi.

Gagnrýnin beinist sjaldan gegn baráttumálunum sjálfum. Hún beinist gegn orðræðunni vegna þess að orðræðan gefur iðulega til kynna að allt óréttlæti í heiminum sé körlum að kenna og að konur beri litla eða enga ábyrgð á sjálfum sér og hlutskipti sínu. Gagnrýnin beinist einnig gegn ýkjum, ofstæki og vafasömum vísindinum. Einu baráttumál feminista sem ég hef séð gagnrýnd að ráði eru svokölluð „jákvæð mismunun“ og svo hin heilaga herferð gegn kyni og klámi. Í langflestum öðrum tilvikum eru það ekki málin sjálf heldur hvernig staðið er að þeim, sem fer fyrir brjóstið á fólki.

Ég vil fá almennileg rök fyrir því að femínistar hafi verra aðgengi að fjölmiðlum en annað fólk.

Ég er sammála því að réttindabarátta á ekki að snúast um kurteisi eða góða ímynd. Ég er hinsvegar afskaplega efins um að það að jafna hlutföll kynja í valdastöðum, bæti hag annarra kvenna en þeirra sem hreppa þær stöður. Ég sé ekki betur en að konur á þingi séu nákvæmlega jafn líklegar til góðra verka og vondra og karlarnir. Frekar vildi ég sjá baráttu fyrir allt öðruvísi stjórnkerfi.