Ég er að verða ponkulítið leið á þeirri goðsögn að konur hafi slæmt aðgengi að fjölmiðlum. Ég dreg líka í efa að kvennakúgun og yfirgangur karla sé stóra skýringin á minni pólitískri þátttöku kvenna en karla.Ef konum væri á einhvern hátt meinuð stjórnmálaþáttaka og aðgengi að fjölmiðlum eða allavega gert erfitt fyrir, þá hlyti hlutfall þeirra sem skrifa og taka þátt í umræðum á netinu að vera hærra. En er það svo?
Fyrir mörgum árum skoðaði Sigurður Hólm kynjahlutfall á pólitískum vefritum.
Hann birti annan pistil um sama efni í dag.
Ég kíkti til gamans á þá miðla sem ég hef fylgst með undanfarin ár. Ég er ekki búin að telja nákvæmlega eða reikna út hlutföll en lausleg skoðun leiddi mig að eftirfarandi niðurstöðum:
Eggin: Karlar skrifa.
Gagnauga: Karlar skrifa.
Kryppan: karlar.
Rósturpennar skrifa ekki undir nafni.
Nei-ið er dáið, því miður, flestar greinar þar eru nafnlausar.
Svartsokka hefur verið óvirk undanfarið og getur ekki höfunda en ég býst við að konur séu í meirihluta þar.
Múrinn, besta vefrit allra tíma er löngu dáinn, þar voru karlar í meirihluta og skrifuðu fleiri greinar en konurnar.
Svipan getur ekki alltaf höfunda en þegar það er gert þá er pistillinn oftar en ekki eftir karlmann.
Smugupennar: Karlar í meirihluta og skrifa að jafnaði fleiri greinar. Reynt er að gæta jafnvægis meðal fastra penna og hallar þó aðeins á konurnar og aðsendar greinar eru mun oftar eftir karlmenn.
Deiglan: Karlar fleiri og afkastameiri
Tíkin er á fb. Lítur út eins og fréttatenglasafn. Þar er ekki neinn penni eða nein umræða,allavega engin sem er sýnileg öðrum en þeim sem ‘læka’ síðuna.
Ekki veit ég hvernig á því stendur en skrif karla virðast líka vinsælli en skrif kvenna. Af 10 vinsælustu bloggurum blogggáttarinnar, þegar þetta er skrifað, eru 9 karlmenn. Af 5 vinsælustu færslunum eru 4 eftir karlmenn og af 5 vinsælustu færslunum á fb (skv. blogggátinni) eru 4 eftir karlmenn.
Ég held ekki að spurningin sé sú af hverju fjölmiðlar og pólitískir flokkar haldi konum niðri, heldur frekar hversvegna konur hafi minni áhuga á pólitík en karlar og hversvegna þær skrifi minna. Það er allavega ekki vegna þess að þær hafi ekki aðgengi að internetinu.
Opnumynd: StartupStockPhotos, Pixabay